Hreppsnefnd fjallaði um bréf lóðaeigenda
Á fundi hreppsnefndar Kjósarhrepps þann 6. september var tekið fyrir mótmæli lóðareigenda á Harðbala vegna vinnu hreppsnefndar varðandi endurnýjun á leigusamningi um sumarhúsalóð hreppsins á Harðbala.
Í erindinu er mótmælt áformum hreppsins um að endurnýja leigusamning fyrir frístundalóð hreppsins á Harðbala og að koma á vegtengingu við hana samkvæmt deiliskipulagi. Lóðareigendur halda jafnframt fram í erindi sínu að munnlegt samkomulag hafi verið gert við sölu lóðana, að greindur leigusamningur yrði ekki endurnýjaður í lok leigutímans.
Vegna þessa mótmæla gerir hreppsnefnd eftirfarandi bókun:
“Frístundahús það sem stendur á Harðbala hefur staðið þar frá 1970. Leigutíminn rennur út árið 2020. Ekki hafði verið tekin afstaða í hreppsnefnd Kjósarhrepps um að segja upp eða framlengja umræddan leigusamning fyrr en á fundi hreppsnefndar þann 05.07.2007 en þá var oddvita falið að vinna frekar að nýjum samningi að ósk leigutaka. Gert var ráð fyrir vegtengingu um Harðbala að umræddri leigulóð á staðfestu skipulagi sem var hluti kaupsamnings kaupenda lóða og hreppsnefndar Kjósarhrepps”.