Húsfyllir hjá Bubba í Félagsgarði
Húsfyllir var í Félagsgarði í Kjós á tónleikum Bubba Morthens þann 30. apríl. Bubbi ávarpaði gesti í upphafi tónleikana og sagði að það blési gleði í hjarta sitt að sjá svona marga og vonaði að fjölmennið stafaði ekki af því að hann væri kominn með lögheimili í Kjósarhreppi, heldur að fólk væri komið til að næra andann. Á milli laga var honum tíðrætt um ástina, fíknina og fanga úr öllum stéttum þjóðfélagsins og undraðist að “sumir” nytu forréttinda umfram aðra og væru náðaðir. Jafnframt gagnrýndi hann dauðarefsingar. Þá sagði hann sögu af því þegar aska jarðneska leyfa föður hans var borin uppá topp á Meðalfellinu, sem var hans unaðsstaður, en að ekki hefði viljað betur til en svo, vegna uppstreymis vindanna, að askan hefði öll fallið yfir fjölskylduna.
Mörg laganna sem hann flutti verða á óútkomni hljómplötu hans sem kemur út þann 06.06.08. þar á meðal “Brúnu augun þín” Þá flutti hann eldri lög sem jafnan koma áheyrendum í andlegt ástand.
Í lokaorðum sagði Bubbi að í næstu viku flytti hann og Hrafnhildur í hús þeirra “Fagraland” við Meðalfellsvatn og þakkaði gestum fyrir komuna.