Kátt í Kjós
Laugardaginn 17. júlí næstkomandi verður Kjósin opnuð fyrir gestum og gangandi undir kjörorðinu “Kátt í Kjós” og er þetta í fjórða sinn sem efnt er til slíkrar hátíðar í sveitarfélaginu. Á undanförnum árum hafa mörg þúsund manns heimsótt Kjósina heim á þennan „Kjósardag“, sem vakið hefur verðskuldaða athygli og tekist með miklum ágætum.
Með hátíðinni „Kátt í Kjós“ vilja Kjósverjar gefa öllum þeim sem áhuga hafa tækifæri á að koma í heimsókn í sveitarfélagið til þess að skoða sveitina og það sem falleg náttúran og íbúar sveitarfélagsins hafa uppá að bjóða. Markmið með „Kátt í Kjós“ er meðal annars að vekja athygli á þeirri atvinnustarfsemi sem fram fer í Kjósinni og þeim miklu tækifærum sem þar felast. Margir Kjósverjar eru tilbúnir að opna býlin sín og bjóða gestum heim og kynna starfsemi sína og starfsvettvang.
Í Félagsgarði verður alvöru sveitamarkaður, þar sem ýmsar vörur verða kynntar og seldar af yfir 30 aðilum og Kvenfélag Kjósarhrepps verður þar með kaffi og heitar vöfflur til sölu.
Húsdýr verða til sýnis á vellinum við Félagsgarð
Í Ásgarði verður sýnd mynd Þorsteins Jónssonar, Liljur vallarins, og Kjósarmyndin frá 1953, eftir Viggó Nathanelsson. Sýndar verða myndir frá skólaárunum í Ásgarði og bækur verða boðnar til sölu. Kvenfélagið verður þar með kaffi og kleinur til sölu.
Í Reynivallarkirkju flytur séra Gunnar Kristjánsson erindi um skírnarfatið í Reynivallakirkju, uppruna þess og sögu.
Á Kiðafelli hefur verið komið fyrir fjölbreyttu safni gamalla muna í viðeigandi umhverfi og verður safnið opið gestum og gangandi. Í Eyrarkoti, sem er ferðaþjónustubær ofan við Hvalfjarðareyri, verða ýmsar uppákomur og einnig boðið uppá ferðir á heyvagni fyrir börn og fullorðna. Kaffi Kjós er þjónustumiðstöð staðsett í suðurhlíð Meðalfells og verður þar ýmislegt skemmtilegt gert. Veiðikortið og Veiðifélagið Hreggnasi bjóða frítt í veiði í Meðalfellsvatni á „Kjósardaginn“ á milli kl. 13 og 17. Umráðamenn dýragrafreitsins að Hurðabaki í Kjós bjóða gesti velkomna. Á Neðra-Hálsi, þar sem stunduð er lífræn mjólkurframleiðsla, verður boðið uppá fræðslu um lífrænan landbúnað og gestum boðið að bragða á fullunnum lífrænum mjólkurafurðum. Í Hvammsvík er afbragðs aðstaða til útivistar fyrir alla fjölskylduna. Á „Kjósardaginn“ bjóða rekstraraðilar í Hvammsvík frítt í golf og afslátt af veiðileyfum í vatninu.
Matarbúrið á Hálsi og hið nýstofnaða Kú.is verða með kynningar á vörum sínum í Félagsgarði.
Íslandsmeistaramót Poulsen í heyrúlluskreytingum verður haldið í annað sinn á Laxárnestúninu neðan við félagsgarð á milli kl. 13:30 og 15:30. Fyrsta íslandsmeistaramótið í þessari listgrein fór fram á síðasta ári og vakti mikla athygli. Ýmsir lögðu leið sína í Hvalfjörðinn í framhaldi til þess að berja listaverkin augum.
Hátíðin „Kátt í Kjós“ stendur yfir milli kl. 12 og 17