Kjósarhreppur vill fá notið sinna auðlinda
Eins og fram hefur komið hér á síðunni hefur Orkuveita Reykjavíkur ákveðið að selja Hvamm og Hvammsvík án jarðhitaréttinda.
Í erindi oddvita Kjósarhrepps þann 18. mars sl. til stjórnar OR kemur m.a. fram:
“ Á undanförnum árum hefur ríkt óvissa um framtíðaráform Orkuveitu Reykjavíkur á jörðunum Hvammi og Hvammsvík.
Kjósarhreppur byggir afkomu sína á að jarðir í hreppnum séu setnar og á þeim sé rekin blómleg starfsemi. Það hefur valdið áhyggjum, að þau tækifæri sem ofangreindar jarðir bjóða uppá skuli ekki vera nýtt sem skildi, og að óvissa hafi ríkt um framtíðar uppbyggingu þeirra.
Þá hefur það valdið vonbrigðum, að ekki hefur tekist í samvinnu við Orkuveituna, að skapa grundvöll fyrir nýtingu jarðvarma jarðanna til almenningsnota í hreppnum. Kjósarhreppur þarf á að halda að auðlegð innan hreppsins, hvort sem er landgæði eða jarðvarmi, nýtist samfélaginu til velsældar og það sé frumréttur hvers sveitarfélags að fá notið sinnar auðlegðar.
Þá er að lokum komið þeirri ósk á framfæri við stjórn Orkuveitu Reykjavíkur, að hún beiti sér fyrir að málefni jarðanna verði til lykta leitt hið bráðasta, þannig að næstu skref sem stigin verða, veði skref til framþróunar, Kjósarhreppi til heilla.”
Í svari forstjóra Orkuveitunnar er skýrt frá niðurstöðu stjórnar og um leið og fyrirtækið þakkar Kjósarhreppi gott samstarf um ítrekaðar kannanir á möguleikum til nýtingar jarðvarma, byggð og mannlífi í hreppnum til framdráttar, lýsir Orkuveitan sig fúsa til samstarfs um áframhaldandi könnun á þeim möguleikum.