Fara í efni

Kjósarmórinn - þríþrautarkeppni í Kjósinni 8. ágúst nk

Deila frétt:

 

Næsta laugardag, 8. ágúst, verður aldeilis kraftur í Kjósinni, þá verður Kjósarmórinn haldinn. Um er að ræða hálfa þríþraut, hálfan Járnmann, þar sem vegalengdir eru 1,9 km sund, 90 km hjól og 21,1 km hlaup.

Kjósarmórinn er fyrsta hálfa þríþrautin á Íslandi þar sem synt er í opnu vatni, en keppendur koma til með að synda í Meðalfellsvatni, (sjá mynd t.v).

 

Keppendur verða ræstir kl. 10 við Kaffi Kjós, sem verður aðalstaðurinn við allar skiptingar og lokamark.

Gera má ráð fyrir að sneggstu keppendur verði að ljúka þríþrautinni upp úr kl. 15 en keppni verður lokað eigi síðar en kl. 17, eftir þann tíma eiga engir keppendur að vera í brautunum.

 

Fyrst skella keppendur sér til sunds út í Meðalfellsvatn.

Að sundi loknu stökkva keppendur á reiðhjólin, hjóla upp Kjósarskarðið, snúa þar við og bruna inn í Hvalfjarðarbotn. Þar er aftur snúið við og endað við Kaffi Kjós. Alls 90 km, (sjá kort hér að neðan t.v). Fyrsti keppandi byrjar að hjóla ca kl. 10:30 og síðasti að klára hjólaleiðina um kl. 14:00.

 

Þegar hjólreiðum er lokið er tekið við á tveim jafnfljótum, hlaupið frá Kaffi Kjós inn að Grjóteyri, snúið þar við, hlaupið sem leið liggur inn að Vindáshlíð og til baka að Kaffi Kjós, þar sem markið er, (sjá kort hér að neðan t.h).  Fyrsti keppandi byrjar að hlaupa um kl. 13:00.

 

 

Chris „Macca“ McCormack, margfaldur heimsmeistari í þríþraut, mun taka þátt í Kjósarmóranum.

„Ég er mjög ánægður að vera að koma til Íslands og taka þátt í þessari keppni“, sagði Macca í samtali við tímaritið Lava Magazine.
„Mig hefur langað að fara til Íslands í mörg ár, og þetta er frábært tækifæri til að keppa þar og uppgötva landið. Ég ætla að taka alla fjölskylduna með mér og held að þetta verði magnað.“

 

Allar brautir verða vel mannaðar og skilti, sem vara við keppni sett upp frá öllum áttum sem nálgast brautina.

Það er Þríþrautarfélag Kópavogs, ÞRÍKÓ, sem er ábyrgðaraðili keppninnar með leyfi frá Vegagerðinni, Lögreglunni og Kjósarhreppi.

 

Sýnum tillitssemi, hvetjum keppendur áfram og höfum gaman af þessu !

 

Chris „Macca“ McCormack, margfaldur heimsmeistari í þríþraut

Mynd frá Kjósarsprettinum 2014.

Búast má við margvíslegum áhorfendum

Hjólaleiðin 90 km Hlaupaleiðin 21,1 km