Kjósverjar buðu Álftnesingum heim
Kjósverjar buðu sveitarstjórnarfólki af Álftanesi heim föstudaginn 23. nóvember eða sama dag og Álftnesingar unnu Reykjavíkinga í Útsvari. Tuttugu manna hópur þáði boðið. Fyrst var komið við á Samansafninu á Kiðafelli en þar þágðu menn hangikjöt, hákarl og íslenskt brennivín ásamt því að skoða hið fágæta samansafn allskonar hluta. Síðan var tekin ferð um sveitina og borholan skoðuð, komið við í Ásgarði og að síðust farið í Félagsgarð og borðaður matur framleiddur í Kjós.
Snorri Finnlaugsson bæjarstjóri Álftaness færði Kjósarhrepp fallega ljósmynd af Álftanesi og tók Guðmundur Davíðsson oddviti við henni
Guðni Ágústsson var ræðumaður kvöldsins og gerði það með mestu ágætum

Sagan var sú að Kjósarhreppur var hér áður í félagsskap lítilla sveitarfélaga(Kjós, Kjalarnes og Bessastaðahreppur) á höfuðborgarsvæðinu sem heimsóttu hvert annað til skiptis, nokkuð reglulega. Það er að segja starfandi sveitarstjórnarmenn, nefndarfólk og oftast makar.
Kjósarhreppur bauð síðast heim vorið 2001 og þá Besastaðahreppi/Álftanesi þar sem Kjalarnes hafði þá sameinast Reykjavík. Álftanes bauð síðan heim aftur og nú hefur staðið lengi upp á Kjósarhrepp að bjóða þeim heim. En þar sem Álftanes er að sameinast Garðabæ um næstu áramót var ekki seinna vænna fyrir Kjósarhrepp að bretta upp ermar og klára málið.