Kjósverjar endurvinna 33% úrgangs
Á árinu 2011 söfnuðust um 311 tonn af úrgangi í Kjósarhreppi í gegnum sorphirðu og endurvinnsluplanið við Meðalfell. Það gera um 1481 kg á íbúa að meðaltali sem er sambærilegt við landsmeðaltal. Um 33% þessa úrgangs fór til endurvinnslu eins og heyrúlluplast, hreint timbur, bylgjupappi og annar pappírsúrgangur, plastumbúðir o.fl. Á grafinu má sjá skiptingu þessa úrgangs og er úrgangur sem fór til endurvinnslu grænn að lit.
Um 67% úrgangsins var fargað með urðun með tilheyrandi kostnaði þar sem dýrara er fyrir sveitarfélagið að losna við blandaðan úrgang, grófan úrgang og blandað timbur auk þeirra umhverfisáhrifa sem því fylgja. Á grafinu er úrgangur sem er fargað rauður að lit. Slíkur úrgangur er urðaður og þar með glatast bæði næringarefni og hráefni úr hringrás náttúrunnar auk þess sem töluvert landssvæði þarf undir úrganginn, en hann er urðaður í Álfsnesi á urðunarstað SORPU. Þessu er öfugt farið hjá íbúum höfuðborgarsvæðisins en þar fóru aðeins um 38% úrgangsins til urðunar eins og fram kemur í frétt á heimasíðu SORPU.
Í Kjósarhreppi er þjónusta vegna sorphirðu sambærileg við það sem gerist á höfuðborgarsvæðinu en helsti munurinn liggur í lífrænni vinnslu. Metangas er framleitt úr lífrænum úrgangi sem jafngildir 25% endurvinnslutölunnar á höfuðborgarsvæðinu. Í Kjósarhreppi fellur til umtalsvert magn húsdýraúrgangs sem mætti nýta til metanframleiðslu ef hagstæð leið fyndist til þess. Metanvinnsla myndi einnig auka gæði áburðar úr húsdýraúrgangi samkvæmt rannsóknum sem hafa verið gerðar. Metanið er síðan hægt að nýta sem orkugjafa auk þess sem metan er ein af þeim lofttegundum sem valda auknum gróðurhúsaáhrifum í heiminum. Með því að brenna metani og umbreyta því þannig í koltvísýring er dregið úr áhrifum þess tuttuguogeittfalt auk þess sem það gæti sparað kostnað vegna rafmagnskaupa.
Það vekur athygli að pappírsúrgangur sem safnast til endurvinnslu í Kjósarhreppi er einungis 2% alls úrgangs en gera má ráð fyrir að pappírsúrgangur sé um 20% af heildarmagninu. Hér er tvímælalaust tækifæri til að leggja enn frekar af mörkum og Kjósverjar geta gert enn betur. Íbúar eru því hvattir til þess að flokka og skila bylgjupappa, drykkjarfernum, dagblöðum og tímaritum í þar til gerðan gám á endurvinnsluplani auk annars endurvinnanlegs úrgangs. Upplýsingar um hvernig skal flokka úrgang er að finna undir tenglinum flokkun úrgangs.
Með bestu kveðjum,
Umhverfisnefnd Kjósarhrepps