Fara í efni

Kröftugur aðalfundur Umhverfisvaktarinnar

Deila frétt:

Fyrsti aðalfundur Umhverfisvaktarinnar í Hvalfirði var haldinn í Kaffi Kjós 15. Nóvember sl. Ragnheiður Þorgrímsdóttir formaður gerði grein fyrir helstu verkefnum á fyrsta starfsári félagsins. Vegna fyrirhugaðar stækkunar iðnaðarsvæðisins á Grundartanga og fjölgunar á mengandi iðjuverum hefur augu vaktarinnar fyrst og fremst beinst að þeim þætti umhverfismála í Hvalfirði. Félagið heldur úti vefsíðunni umhverfisvaktin.is. Eftir að ályktanir fundarins voru sendar út í síðustu viku var ráðist að síðunni af hakkara og hefur síðan verið óvirk, en nú hefur tekist að endurheimta uppsetninguna.

Fundurinn samþykkti fjórar ályktanir. Ein varðaði neysluvatnsmál á Akranesi og skorða var á bæjaryfirvöld að vera á verði þar sem um yfirborðsvatn er um að ræða. Skorað var á ríkisstjórnina að svara þeirri spurningu: hversu langt sé ætlunin að ganga á rétt íbúa til  hreins umhverfis, með mengandi iðnaði í Hvalfirði og hvort ekki sé hægt að beina mengandi iðnaði til þeirra landshluta sem hann vilja fá. Þá beinir fundurinn því til Umhverfisráðherra að flytja ábyrgð á umhverfisvöktun iðjuveranna frá iðjuverunum sjálfum til opinberar stofnunar.

Fundurinn skorar jafnframt á sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar að falla frá frekari stækkun iðnaðarsvæðisins á Grundartanga og bendir á þá óhugnanlegu staðreynd að innan þynningarsvæðis fyrir flúors og brennistein er  starfrækt fóðurframleiðsla fyrir landbúnaðarframleiðslu og öll aukning á mengandi efnum í kælilofti fóðurstöðvarinnar stefni rekstri hennar í enn frekara óefni.

Ályktanir fundarins má nálgast HÉR