Fara í efni

Leitin að jarðvarma skilaði góðum árangri

Deila frétt:

Leit að jarðvarma í Kjósarhreppi er lokið. Staðfest hefur verið með rannsóknarborunum að nægur jarðvarmi er til staðar, sem gefur tilefni til að ætla að um nýtanlegt heitt vatn sé um að ræða á belti þvert yfir Laxárdal, vestan við Möðruvelli í landi Vindáss og Möðruvalla. Umfangsmikil leit fór fram sunnan Laxár sem skilaði góðum árangri. Jafnframt voru boraðar tvær holur norðan Laxár, í landi  Vindáss, til að finna stefnu hitabeltisins.

Næsta skref  er að kanna  samningsgrundvöll fyrir nýtingu jarðhitans gagnvart landeigendum., en jarðhitaréttindi fylgja eignarhaldi jarða og lóða. Þegar og ef samningur hefur komist á er hægt að meta forsendur fyrir hagkvæmni orkunýtingar.

Að mati Kristjáns Sæmundssonar jarðfræðings er heppilegast að styrkja forsendur með því að bora könnunarholu 250-400 m. djúpa til að fá upplýsingar um hita vatnsins og ef vel tekst til dýpt  niður á virkjanlegt vatn.