Fara í efni

Liljur vallarins forsýnd í Ásgarði

Deila frétt:

Miðvikudagskvöldið 5. maí klukkan 20.30 mun myndin Liljur vallarins, eftir Þorstein Jónsson verða forsýnd á félags- og bókasafnskvöldi í Ásgarði Kjós.

Liljur vallarins (55 mín.) er um stóru spurningarnar - um Guð, tilgang lífsins og dyggðirnar. Þessar spurningar eru settar fram í raunverulegu umhverfi í fámennri sveit, þar sem sköpunarverkið flæðir út um allar grundir - menn, dýr og náttúra.


Myndin er tekin að mestu leyti í Kjósinni, fram koma margir kjósverjar í myndinni og hvetjum við alla að koma á þessa forsýningu.


Er trúin eða presturinn eða kirkjan að hjálpa sóknarbörnunum til að verða betri manneskjur og rækta dyggðirnar, hvernig svo sem kristnihaldi þeirra er háttað að öðru leyti?

Séra Gunnar kemur inn í þetta íhaldsama bændasamfélag með róttækar hugmyndir frá Evrópu, kenningar friðarhreyfinga og nýjar hugmyndir um náttúruvernd. Í hans huga eru þessar hugmyndir nátengdar kenningum Jesú frá Nasaret og boðskap Biblíunnar. Í sókninni eru ekki allir sammála um það.

Hvaða áhrif hefur trúin á virðingu manna við sköpunarverkið, samfélag manna, umhverfi mannsins og náttúruna? Séra Gunnar berst fyrir málstað mannúðar, friðar og náttúruverndar með þeirri dyggð sem honum finnst duga best, hófsemdinni.