Meira heitt vatn fundið í Kjósinni
Í gær, 27. apríl voru borstangirnar hífðar upp og var þá holan 1704 m djúp. Holan var síðan blásin með lofti. Blásið var til kl. 18:30 til að flýta fyrir hitnun holunnar og fá hana í sjálfrennsli. Holan fór síðan í sjálf-rennsli eftir 30-45 mín eftir að blæstri lauk.
Gerð var afkastamæling í morgun með stangir annars vegar á 250 m og svo á 150 m dýpi, eins og gert var þann 9. apríl. Þá gaf holan 10-13 l/s við blástur og er nokkuð ljóst að aukning hefir orðið við dýpkun hennar frá 1580 m niður í 1704 m. Og viti menn holan gefur nú 20 l/s af 104 gráðu heitu vatni, en fyrri holan gaf 20l/s af 80 gráðu heitu vatni.
Bormenn pakka nú saman og flytja sig að Bláa lóninu eftir vel heppnaða borun eftir heitu vatni í Kjós. Vinnan við borunina hófst 31. janúar fyrir um þrem mánuðum síðan, þannig að biðin er búin að vera löng og ströng eftir árangri.
Til hamingju Kjósverjar.
Varúð, það er bannað að fara að holunni vegna slysahættu, því vatnið er sjóðandi heitt og mikill kraftur í því.