Fara í efni

Miklir erfiðleika framundan hjá sveitarfélögum

Deila frétt:

Stjórn Samtaka sveitarfélaga á Höfuðborgarsvæðinu hélt stjórnarfund í hádeginu í dag. Nýkjörinn formaður; Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar stýrði fundinum. Fundir hafa verið haldnir óvenju títt að undanförnu, sem kemur til vegna þess vanda sem sveitarfélögin standa frammi fyrir; nefnilega að koma saman hallalausum fjárhagsáætlunum fyrir næsta ár, í ljósi tekjusamdráttar og auknum útgjaldaþunga í kjölfars efnahagshrunsins. Forsvarsfólkið hefur einsett sér að verja grunnþjónustuna sinna sveitarfélaga eftir fremsta megni en eru jafnframt uggandi um að til verulegra aðgerða til kostnaðarsamdráttar þurfi að grípa.

Á aðalfundi SSH sem haldinn var sl. föstudag var samþykkt ákall til ríkisstjórnvalda  um að nú þegar verði komið á fót samráðshópi ríkis og aðildarsveitarfélaga SSH til að móta sameiginlegar aðgerðir ríkis og sveitarfélaganna sem tryggt geti hallalausan rekstur sveitarfélaganna og spornað gegn atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu á næsta ári. Í því sambandi þarf að horfa til eðlilegrar kostnaðarskiptingar milli ríkis og sveitarfélaga vegna  þeirra viðbótarútgjalda sem blasa við sveitarfélögunum vegna velferðarmála, öldrunarmála og fræðslumála, aðgengis sveitarfélaganna að nauðsynlegu  fjármagni til að mæta tekjusamdrætti,  og framlögum ríkisvaldsins til að viðhalda umfangi mannaflsfrekra framkvæmda s.s. vegna  nauðsynlegra  samgöngumannvirkja á höfuðborgarsvæðinu.