Munnmæli starfsmanna Umhverfisstofnunar halda ekki
Umhverfisstofnun hefur birt á heimasíðu sinni yfirlýsinu um að upplýsingar sem fram komu á fundi með fyrrverandi sérfræðingi hjá stofnunni í Hvalfjarðarsveit á sl. ári, sé ekki hægt að eigna stofnunni.
Í fréttum Stöðvar 2 sl. sunnudag sagði oddviti Kjósarhrepps eftirfarandi:
„Samkvæmt upplýsingum sem ég hef fengið frá Umhverfisstofnun að þá viðhafa þeir ekki þessa venju að vera með bestu fáanlega tækni. Þetta felst aðallega í rafskautunum að gæði þeirra hafa áhrif á hver mengunin verður mikil og eftir því sem gæðin eru meiri á rafskautunum, þeim dýrari verða þau og mér er sagt frá Umhverfisstofnun að þeir svona hliðri þessu til og kaupi ódýrari skaut sem menga meira.“
Oddviti Kjósarhrepps hefur haft samband við Gunnlaugu Einarsdóttir sviðstjóra hjá Umhverfisstofnun og gert athugasemd við yfirlýsinguna og hvort ekki megi treysta munnlegum upplýsingum sem fram koma hjá starfsmönnum Umhverfisstofnunar.
Jafnframt hefur hann óskað eftir að fá senda skýrslur Norðuráls um innihald brennisteins í rafskautum og eldsneyti sem fyrirtækið notar, samanber ákvæði 2.1.9 í starfsleyfi Norðuráls.
Samkvæmt Gunnlaugu er ekki hægt að fá þessar upplýsingar nema að undangenginni skriflegri umsókn til Umhverfisstofnunar.