Námskeið í eldvörnum
Ein stærsta yfirvofandi váin í Kjósinni er hætta á kjarr- og skógareldum. Undanfarin ár hefur Kjósarhreppur staðið fyrir eldvarnarnámskeiðum sem hefðu mátt vera betur sótt en er þó vaxandi áhugi fyrir. Laugardaginn 14. Júní hélt Sumarhúsafélag Valshamars eldvarnarnámskeið, þar sem lögð var áhersla á notkun slökkvitækja, viðhald þeirra og virkni. Leiðbeinandi var Jón Pétursson fyrrverandi slökkviliðsmaður hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og kennari á slökkvitæki hjá landsamband slökkviliðsmanna. Jón hefur umsjón með viðhaldi og hleðslu slökkvitækja hjá öryggismiðstöðinni. Góð mæting var á námskeiðið sem stóð í um tvær klukkustundir með fyrirlestri og glærukennslu. Því næst var farið upp í Eilífsdal á brennusvæði Valshamars þar sem verkleg kennsla fór fram undir stjórn Jóns Péturssonar þar sem viðstaddir fengu kennslu í notkun slökkvitækis við að slökkva eld sem og notkunar á eldvarnarteppi. Kjósarhreppur leggur sumarhúsafélögum og öðrum þeim í sveitarfélaginu sem vilja standa fyrir slíkum námskeiðum til húsnæði að kostnaðarlausu.