Fara í efni

Samson lifir

Deila frétt:

Það voru Kjósverjar sem fluttu Jakobi Rúnari Jónssyni, sem er betur þekktur sem Kobbi í Skriðjöklum, þá fagnaðarfrétt að Samson væri á lífi.  Kobbi átti engan þátt í útrásinni og engin bréf í Samson en Kobbi hafði glatað helsta gæðingi sínum, Samson frá Akureyri, í Mosfellsdalnum á leið að Skógarhólum rétt fyrir síðastliðna verslunarmannahelgi.  Samson hafði verið færður í aðhald á einum bænum í Mosfellsdalnum á meðan Kobbi spilaði og söng.  Eitthvað var Samson orðinn leiður á þessari áráttu Kobba og lét sig hverfa úr aðhaldinu.  Ekki hafði sést til Samsonar síðan þrátt fyrir mikla leit.

 

Það var í fyrradag sem ofurbóndinn á Morastöðum, Orri Snorrason, glennti upp glyrnunar er hann sá hest koma niður Esjuhlíðar í landi Norður-Kots í Hvalfirði, er hann var á leið hjá í bíl sínum á mikilli ferð.  Orri, sem er hestglöggur maður með afbrigðum, átti erfitt með að festa svefn um kvöldið enda kannaðist hann ekki við að hesturinn væri í eigu nágranna sinna eða sveitunga.  Hann ákvað að kanna málið betur næsta dag og rak þá augun í sama hest sem virtist vera að taka strauið inn Miðdal og upp í Esjuhlíðar að nýju. 

 

Orri ákvað að gera tilraun til þess að fanga hestinn.  Hann kallaði til hjálpar ofurbóndann á Kiðafelli í Kjós, Sigurbjörn Hjaltason.  Í lið með þeim gekk Haukur Þorvaldsson, landskunnur hestamaður, og Guðmundur nokkur, frækinn hestamaður sem er best þekktur fyrir að selja mold.   Þeir félagar sýndu mikla hetjudáð með því að fanga hestinn og var hann færður í hesthús á Tindstöðum í Miðdal.  Hesturinn, sem var örmerktur, reyndist vera Samson undan Stólpa frá Búlandi og Mýru frá Akureyri, fyrrverandi graðhestur og gæðingur Kobba í Skriðjöklum.  Kobbi var strax látinn vita og mætti hann að Tindstöðum um hæl og heilsaði uppá þennan mikla vin sinn. 

 

Kobbi kveðst vera ævarandi þakklátur Kjósverjum, sérstaklega þeim Orra, Sigurbirni, Hauki og Guðmundi.  Kobbi mun færa þeim félögum áritaðan geisladisk frá Skriðjöklum og segist reiðubúinn að halda tónleika fyrir Kjósverja án endurgjalds.  Gæðingurinn Samson virðist hafa verið að skemmta sér í Esjunni á undanförnum vikum með geitum frá Flekkudal og rollum úr sveitinni.  Samson kom vel haldinn af fjalli.