Fara í efni

Saumaklúbbur í 45 ár

Deila frétt:

Steinunn,Marta,Hildur,Ásta,Þórdís,

Sigrún og Annabella

Það var á Þorrablóti í Félagsgarði árið 1963 að fimm ungar konur í Kjósinni afréðu að stofna saumaklúbb. Litlu seinna bættust fjórar konur í hópinn. Allt frá þeim tíma hefur verið haldinn saumaklúbbur annan hvern fimmtudag óslitið síðan og varla teljandi að fallið hefur niður klúbbur á þessum tíma, en klúbburinn fagnar 45 ára afmæli sínu um þessar mundir. Allar þessar konur voru aðfluttar, ýmist úr nærliggjandi sveitum eða lengra að komnar. Eiginmenn þeirra eiga það allir sameiginlegt að vera  innfæddir Kjósverjar og bændur.

Fyrstu 20 árin voru konurnar níu í klúbbnum en síðustu 25 ár hafa þær verið 7 sem haldið hafa hópinn. Eins og gefur að skilja varð  þó nokkur fjölgun í sveitinni vegna þessara aðfluttu kvenna, enda reyndust þær frjósamar. Vorið 1967 eignuðustu sjö þessara kvenna börn á tveggja mánaðar tímabili sem rakið var til viðvarandi rafmagnstruflana á haustnóttum 1966. Afkomendur þessa  sjö kvenna og bænda þeirra eru nú komnir á annað hundraðið og er þá ótalið stór hópur frá þeim tveimur konum sem gengu úr skaftinu.