Fara í efni

Smalakunnátta bænda og hunda í Kjósarhreppi beið hnekki.

Deila frétt:

Það hafði kvisast út um Kjósarhrepp að sést hafi til furðulegs fjár í Eyjadal, sem ekki hafði komið fram við smölun á lögbundnum smaladögum.  Í fyrstu var talið að um væri að ræða vestfirskt forystufé, sem hefði í sjálfsbjargarviðleytni komið sér á milli sauðfjárhólfa.

 

Nokkrir bændur í Kjósinni sammæltust nýlega um að fá til liðs við sig einn öflugasta smala Suðurlands, Snorra Þórarinsson frá Vogsósum, til að nálgast féð.  Síðastliðinn laugardag mætti Snorri galvaskur til smalamennsku og í för með honum tveir annálaðir smalahundar.  Kjósarbændur mættu á svæðið hundalausir og  töldu sig betur reiðubúna en aðra til hjálpar og alvana menn í fyrirstöðu.

 

Kjósarbændurnir horfðu á eftir Snorra leggja á dalinn og hverfa þeim sjónum.  Þeir beindu kíkjum sínum í Litluskál og Miðskál og síðar í Stóruskál og á Trönu.  Mikið var skrafað út um opna bílgluggana á milli þess sem kíkjunum var beitt.  Þorrablótið var rifjað upp og sveitarstjórnarmál voru ofarlega á baugi.    Þar sem nokkur tími hafði liðið frá því að Snorri lagði á dalinn voru bændurnir orðnir áhyggjufullir og töldu að Snorri hefði ekki fundið féð eða jafnvel misst það yfir í Trönudal.  Það hafði jú komið fyrir þá sjálfa áður.  Öllum kíkjum hinna áhyggjufullu bænda var beint ítrekað að Stóruskál og Trönu en hvorki sást til fjár né smala.  Bædurnir stigu út úr bílum sínum til að leggja á ráð en er þeim er þá litið til baka á Eyjarétt, þá stendur þar Snorri smali við réttina ásamt hundum sínum.  Fjörutíu rollur voru komnar inn í réttina.

 

Kjósarbændur þustu að réttinni til að berja hið vestfirska forystufé augum.  Það runnu tvær grímur á bændurna er í ljós kom að féð reyndist allt af Kjósarkyni.  Það var mál manna að smalakunnátta bænda og hunda í Kjósarhreppi hafi beðið nokkurn hnekki.

 

GGÍ