Sr. Árni Svanur Daníelsson þjónar í Reynivallaprestakalli
Árni Svanur Daníelsson hefur verið settur til þjónustu í Reynivallaprestakalli næstu mánuðina og mun þjóna þeim tveim sóknum sem heyra undir prestakallið, Reynivallasókn í Kjós og Brautarholtssókn á Kjalarnesi.
Hann hefur starfað á Biskupsstofu frá árinu 2001. Hann hefur jafnframt gegnt prestsþjónustu í afleysingum sem héraðsprestur í Kjalarnessprófastsdæmi og Reykjavíkurprófastsdæmi vestra og sem sóknarprestur í Bústaðakirkju. Hann vígðist á sínum tíma til að sinna prestsþjónustu á vefnum.
Í samtali við www.kjos.is sagðist Árni Svanur hlakka mikið til þjónustunnar í prestakallinu. „Hér eru fallegar kirkjur og gott fólk. Ég þekki til starfsins frá tímanum þegar ég var héraðsprestur í Kjalarnessprófastsdæmi og hlakka til að kynnast íbúum Kjalarness og Kjósarinnar ennþá betur.“
Árni Svanur er kvæntur sr. Kristínu Þórunni Tómasdóttur sem er sóknarprestur í Laugarneskirkju. Þau eiga sex börn og tvo ketti. Hjónin blogga saman á http://www.arniogkristin.is
Sr. Árni Svanur hefur verið brautryðjandi í miðlun kristinnar trúar á vefnum og netinu í þjóðkirkjunni. Hann leikstýrði tveimur jóladagatölum kirkjunnar um vonina og kærleikann og hefur skrifað og fjallað mikið um samspil trúar og kvikmynda.
Hægt er að ná sambandi við Árna Svan í síma 856 1509 og með tölvupósti á arni.svanur.danielsson@kirkjan.is. Viðtalstímar eru eftir samkomulagi.
Stefnt er að því að fyrsta messa sr. Árna Svans í Reynivallakirkju verði sunnudaginn 4. október nk. Nánar auglýst síðar.
