Fara í efni

Styrkur úr Fjarskiptasjóði

Deila frétt:

 

Kjósarhreppur fékk styrk úr Fjarskipasjóði til uppbyggingar ljósleiðara í sveitarfélaginu.

 

Íbúar í Kjósarhreppi hafa lengi búið við óöryggi í fjarskiptum og hefur netsamband verið hægfara og sérstaklega óstöðugt á álagstímum.  Sjónvarpsútsendingar hafa verið með miklum hnökrum.  Ljósleiðaravæðing mun tryggja íbúum sveitarfélagsins eðlilegan aðgang að efnisveitum og interneti og hlýtur það að teljast bætt lífsgæði. Greiður og góður aðgangur að efnisveitum og interneti telst nú víðast sjálfsagður og nauðsynlegur þáttur í heimilislífi íbúa, rekstri atvinnufyrirtækja og aðstöðu  til náms.  Ljósleiðaravæðing í Kjósarhreppi mun auka líkur á að íbúum fjölgi og að atvinnurekstur verði fjölbreyttari og dafni.  Ljósleiðari getur einnig leitt til þess að þráðlaust símasamband verði bætt í sveitarfélaginu sem ekki hefur verið eins og best er á kosið.

 

Frá vinstri: Ólöf Nordal, Arnbjörg Sveinsdóttir, Guðný G. Ívarsdsdóttir, Páll J. Pálsson og Haraldur Benediktsson.

20. apríl sl. skrifuðu fulltrúar fjarskiptasjóðs, nokkurra sveitarfélaga  og innanríkisráðherra undir samning um styrki fjarskiptasjóðs fyrir uppbyggingu ljósleiðara í sveitarfélögunum til að efla fjarskiptasamband í dreifðum byggðum sem markaðurinn sinnir ekki.  

 

Alls fengu  14 sveitarfélög styrki að þessu sinni til að tengja um 900 staði með ljósleiðara og um 200 staði með ídráttarröri fyrir ljósleiðara. Styrkur ríkisins er alls 450 milljónir króna. Meðal kostnaður ríkisins á hvern stað eru rúmar 400 þúsund krónur.

 

Styrkupphæðir til hvers og eins sveitarfélags eru mjög misháar, allt frá rúmum fjórum milljónum króna og upp í yfir 100 milljónir og markast af fjölda staða sem tengja á og umfangi verkefnisins. Kjósarhreppur  er mjög heppinn að fá að vera með í þessu verkefni og fékk að þessu sinni  úthlutað átta miljónum króna  vegna ársins 2016. Áætlaður kostnaður vegna lagningu ljósleiðara um sveitarfélagið er um 100-120 miljónir króna.