Fara í efni

Þegar Kjósin ómaði af söng

Deila frétt:

Um bókina „Þegar Kjósin ómaði af söng“

Sönglíf, þjóðlíf og mannlíf er viðfangsefni bókarinnar Þegar Kjósin ómaði af söng. Höfundar bókarinnar eru Bjarki Bjarnason og Ágústa Oddsdóttir.

Í bókinni er fjallað um söngmenningu í Kjósarhreppi sem stóð með miklum blóma um langt skeið á liðinni öld og teygði anga sína út á Kjalarnes og suður í Mosfellssveit. Þetta öfluga söngstarf var undir forystu og stjórn Odds Andréssonar bónda að Neðra-Hálsi. Oddur stofnaði söngkvartett um 1930 og upp úr því starfi skaut Karlakór Kjósverja sínum fyrstu rótum. Einnig er fjallað um mannlíf í sveitinni á fyrri tíð. Ágústa hefur frá árinu 1981 safnað upplýsingum um söngstarf og mannlíf í Kjós frá fyrri tíð og haldið til haga munnlegum frásögnum  og er það grunnefni þessarar bókar. Efni bókarinnar byggir því bæði á rituðum heimildum og fjölda viðtala við eldri Kjósverja og lýsa frásagnir þeirra sveitabrag og lífsháttum í sveitinni á þessum tíma. Fjöldi mynda er í bókinni og henni fylgir geisladiskur með upptökum frá Ríkisútvarpinu af söng Karlakórs Kjósverja og Karlakórs Kjósarsýslu.  

Dæmi úr bókinni, bls 131 -132
Einar Karlsson frá Káraneskoti segir frá: „Fyrsta veturinn minn í Kjósinni gekk ég í farskóla í Laxárnesi, þá var brúin komin yfir Laxá. Dag einn í aprílmánuði 1937 var ég á leið heim úr skólanum um miðjan dag og þá mætti ég mönnum sem voru á leið í Laxárnes. Þeir voru allir fótgangandi nema Sigurjón Ingvarsson í Sogni, hann var fótaveikur og kom ríðandi á hesti sínum sem hét Sporður eftir sporðlaga, hvítum bletti sem náði yfir á báðar lendar hans ofan við taglið. Á þessum tíma ársins voru hestar yfirleitt ekki á járnum því knappt var um hey. Heyöflun var mikil og erfið vinna og því var hey yfirleitt sparað á flestum bæjum og hestar ekki járnaðir fyrr en í fyrsta lagi í marsmánuði. Þar fyrir utan var ekki aðstaða til að hýsa hesta fyrir gesti og það tíðkaðist ekki að láta svitastorkin hross bíða úti að vetri til. Auk Sigurjóns voru þarna Eiríkur Sigurjónsson, Guðlaugur Jakobsson og Guðmundur Jónsson, allir frá Sogni. Frá Valdastöðum komu Steini Guðmundsson og bróðursonur hans Guðmundur Þorkelsson. Og svo komu bræðurnir á Hálsi þeir Gestur, Oddur, Ólafur, Karl, Bergur og Gísli og einnig Magnús Eiríksson í Hvammsvík.

Þegar ég spurðist fyrir um ferðir þessara manna kom í ljós að þeir voru á leið á kóræfingu. Ég komst líka að því að kórinn hafði starfað um tíma í Kjósinni, jafnvel frá árinu 1935. Mér finnst það merkilegt að ná saman hópi bænda og bændasona til að syngja saman um miðjan dag um hávetur. Það þurfti töluvert að leggja á sig til að mæta á söngæfingar, ganga fram og til baka og vera kominn heim fyrir mjaltir. En þetta gerðu Jón á Vindási, Oddur á Sandi og Hans í Eyjum, sem bjó síðar á Hjalla. Einnig Gunnar í Eyrarkoti, Bjarni á Þúfu, Miðdalsbræður þeir Davíð og Njáll, Þorkell í Eilífsdal og Magnús í Bæ og þeir Hjörtur á Eyri og Hjalti á Kiðafelli frá árinu 1938. Ég get bætt því hér við að þetta starf Odds hafði mikil áhrif á félagsleg samskipti, menn fengu tækifæri til að hittast og ræða málin af ánægjulegu tilefni.“

Kjósin ómaði af söng

„Búin okkar voru á allstórum grasbala
við skriðuna fyrir ofan bæinn.“
Teikning: Egill Sæbjörnsson, 2021

Bókin er til sölu hjá Pennanum Eymundsson og Forlaginu