Þingmenn heimsækja Kjós í kjördæmaviku.
Hreppsnefndarmenn hittu þingmenn Suðvesturkjördæmis í Ásgarði í síðustu viku en þá stóð yfir kjördæmavika á Alþingi.
Það voru níu þingmenn sem komu og telst það góð mæting af þeirra hálfu en þeir eru tólf. Þeir sem ekki sáu sér fært að koma voru Katrín Júliusdóttir, Ögmundur Jónasson og Þór Saari
Af þessum tólf þingmönnum eru þrír ráðherrar, þau Árni Páll Árnason efnahags- og viðskiptaráðherra, Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra og Ögmundur Jónasson, dóms- og mannréttindaráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Hreppsnefnd átti góðan fund með þingmönnum og lagði hún mikla áherslu á að klára þyrfti endurbætur á Kjósarskarðsvegi og leggja á hann bundið slitlag, ásamt almennum endurbótum á vegum innan sveitar. Einnig lögðu hreppsnefndarmenn áherslu á að endurbyggja þyrfti einbreiðu brúna yfir Laxá í Kjós sem er orðin mjög léleg. Síðast en ekki síst þá voru þingmenn minntir á að fjarskiptamál í Kjós séu algerum ólestri.
Þingmenn voru mjög ánægðir með heimsóknina og lýstu sérstaklega ánægju sinni með stöðu Kjósarhrepps, Þar sem ekki eru til staðar þau fjárhagslegu vandamál sem víða er hjá öðrum sveitarfélögum. Sameiningarmál bar á góma og varð einum þingmanni á orði að skynsamlegast væri og sameina Kjós, Kjalarnes og Mosfellsbæ.