Þorrablótið - táp og fjör og óskilamunir
Velheppnað Þorrablót Kvenfélags Kjósarhrepps er nú að baki. Blótið tókst vel þrátt fyrir að tvísýnt hafi verið á tímabili hvort hljómsveitin Steinríkur, Gísli veislustjóri og sjálfir þorrablótsgestirnir myndu komast, þar sem Kjalarnesi var lokað og varað við að fara hjá Hafnarfjalli. En flest allir skiluðu sér að lokum og þá var ekkert slegið af.
Rætt var um að maturinn hefði aldrei bragðast jafnvel, snafsarnir aldrei verið jafnvel þegnir og það hreinlega rauk úr hljóðfærunum.
Við frágang í Félagsgarði kom í ljós að einhver karlmaður hefur farið heim í rangri úlpu en skilið sína eftir ásamt forláta vasapela klæddan fiskiroði (Ösp Design) og sjóræningjahúfu í vasanum. Þrátt fyrir þessar viðbætur vill hinn eigandinn fá sína úlpu. Auk þess fannst eyrnalokkur á dansgólfinu, sem augljóslega er handgerður og sérhannaður. Þeir sem kannast við þessa muni vinsamlega hafið samband við skrifstofu Kjósarhrepps, s: 566 7100 eða á netfangið: sigridur@kjos.is
![]() |
![]() |
|

