Þyrlur á hreppsskrifstofunni
Starfsfriði á skrifstofu Kjósarhrepps í Ásgarði var spillt með ærlegum hætti nú seinnipartinn í dag. Aðvíðandi komu tvær þyrlur og lentu fyrir utan glugga skrifstofu oddvita, þar sem hann átti sér einskis ills von. Við eftirgrennslan um erindi þessara boðflenna kom í ljós að erindi þeirra var að sækja veiðimenn í veiðihúsið við Laxá. Svo virtist að um fjölskyldufólk væri um að ræða og samkvæmt óáræðilegum heimildum var það af rússnesku bergi brotið. Tíðindamaður kjos.is, sem er sveitamaður hafði hug á að ná mynd af þessum fátíða atburði þegar starfsmenn þjónustufyrirtækis bentu honum á að myndatökur væru illa séðar. Varð honum nokkuð brugðið þegar reynt var að koma í veg fyrir myndatökur. Væntanlega hafa verðirnir haldið að sveitamaðurinn hefði áhuga að ná myndum af fólkinu sem nýtti þessa þjónustu. Á því hafði hann hinsvegar engan áhuga, enda þekkti hann rússneska fólkið ekki neitt, hann ætlaði aðeins að ná myndum af þyrlunum.