Fara í efni

Tilfinningabylting, Svínshöfuð og Austur í Ásgarði 2. des. kl. 20:00

Deila frétt:

Auður Jónsdóttir les upp úr bók sinni Tilfinningabyltingin, Bergþóra Snæbjörnsdóttir les upp úr bók sinni Svínshöfuð og Bragi Páll Sigurðarson upp úr bók sinni Austur.

Upplesturinn fer fram á bókasafninu í Ásgarði mánudaginn 2. des. og hefst kl. 20:00.

Kaffi og kökur verða á boðstólnum.

Auður Jónsdóttir (f. 1973) hefur sent frá sér skáldverk fyrir börn og fullorðna, auk brautryðjendaverksins Þjáningarfrelsisins og fjölda pistla, greina og viðtala fyrir fjölmiðla. Verk hennar hafa komið út í ýmsum löndum og hvarvetna hlotið góðar viðtökur. Stóri skjálfti var valin skáldsaga ársins af bóksölum og tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Þau hlaut hún fyrir Fólkið í kjallaranum sem einnig var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, eins og skáldsagan Ósjálfrátt. Þar, eins og hér, sótti Auður efniviðinn í eigin reynslu sem hún miðlar af skáldlegum frumleika og dirfsku.

Svínshöfuð er fyrsta skáldsaga Bergþóru Snæbjörnsdóttur, sem hlaut tilnefningu til íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir ljóðabókina Flórída. Bókin hefur hlotið mjög góða viðtökur og dóma.

Austur er fyrsta skáldsaga Braga Páls og segir frá Eyvindi, félagslega einangruðum hagfræðingi á fertugsaldri. Í vonlausri leit Eyvindar að tilgangi sínum ferðast hann um hin þrjú dæmigerðu sögusvið íslenskrar sagnahefðar; borg, sjó og sveit, með óvæntum brekkum og beygjum. Bragi Páll er einn sá frumlegasti í flórunni um þessar mundir.