Fara í efni

Tillaga C

Deila frétt:

Merkið samanstendur af sjó, fjallshlíð, sól og himni.

Sjórinn er táknræn mynd af hvalsporði, sem er bein tenging við Hvalfjörð sem Kjósin liggur við og söguna um Rauðhöfða sem fjörðurinn dregur nafn sitt af. Sjórinn er silfurlitaður eins og spegilsléttur fjörðurinn á góðum degi, og svipar einnig til litar af hval. Grunnform skjaldarins spilar líka þarna inná því að lögun hans passar við form sporðs.

Fjallshlíðin táknar bæði fjöru og klettabelti. Hugmyndin af fjörunni kemur frá Maríuhöfn, sem var einn stærsti kaupstaður landsins á miðöldum. Klettabeltið er svo hálf mynd af steininum Steðja, sem var friðlýstur sem náttúruvætti árið 1974. Hann hefur sett svip sinn á ferðalag margra um Kjósina.

Græni liturinn vísar í landbúnað sem er einn stærsti atvinnuvegurinn í sveitarfélaginu og einnig þá miklu útivistarmöguleika sem Kjósin býður upp á.

Himininn táknar kyrrðina, sem er allt um kring eins og allir sem í Kjósinni búa kannast við eftir að heim er komið. Er það stór ástæða fyrir því að fjölmargir leggja leið sína í Kjósina, og margir hafa af þeirri ástæðu byggt sér sumarhús þar.

Sólin táknar veðurbliðuna sem svo oft er í Kjósinni, og einnig má ímynda sér sólina veltast rólega niður fjallið, sem hún gerir myndrænt niður Akrafjall á sumarkvöldi, séð úr Kjósinni. Guli liturinn táknar sólina.

Í heildina litið táknar merkið fjörð, himin og fjalllendi. Hugmyndafræði merkisins er saga Kjósarinnar og fjölbreytt landslag.