„Tómstundagaman Björns“ á Kátt í Kjós.
Yfirlitssýning á verkum Björns Sigurbjörnssonar frá Kiðafelli „ Tómstundagaman Björns“ verður í Eyrarkoti í Kjós frá og með 16. júlí, en hann verður 85 ára á árinu. Myndirnar eru gerðar frá stríðstímum til okkar daga og eru margar þeirra úr Kjósinni.
Margar myndanna eru sögulegar heimildir.
Derek Mundell vinur Björns og fyrrverandi samstarfsmaður hefur verið Birni stoð og stytta við undirbúninginn en hann er sjálfur afbragðs listmálari. Einnig hefur Anna kona Björns stutt hann með ráðum og dáð.
Björn hefur mikla ánægju af vatnslitamálun og eru landslagsmyndir hann einkar vel gerðar þótt hann hafi fengið litla tilsögn frá því í skóla en þá fékk hann alltaf 10 í teikningu. Honum er það gefið að hafa styrka hönd og auga listamannsins sem fangar og túlkar fegurð augnabliksins hvort sem það er í landslagi eða öðru.
