Umsögn sveitarstjórnar Kjósarhrepps um umhverfismatsskýrslu vegna fyrirhugaðs "landeldis" á Grundartanga.
Umhverfismatsskýrsla Aurora Fiskeldis ehf. vegna fyrirhugaðs 28.000 tonna „landeldis“ við Grundartanga í Hvalfirði
Til umsagnar í Skipulagsgátt stjórnvalda, mál nr. 75/2025
Umsagnaraðili: Kjósarhreppur
Dagsetning: 7. janúar 2026
Framlögð umhverfismatsskýrsla er unnin af verkfræðistofunni Eflu fyrir Aurora fiskeldi ehf. og á þeirra kostnað. Skýrslan ber þess sterklega merki að hagsmunir Aurora fiskeldis séu í fyrirrúmi.
Vakin er athygli á því að einungis eru 2,8 km frá strönd að strönd þar sem framkvæmdin á að fara fram, og að fjöruborði Kjósarhrepps. Ekkert byrgir sýn né hljóð yfir fjörðinn. Framkvæmdir á Grundartanga eru á sveitarfélagamörkum og ber að skoða sem slíkar.
Sjónmengun
Í umhverfismatsskýrslunni er algjörlega skautað fram hjá þeirri ljósmengun sem þó má ætla að verði mikil þar sem hér er um ljóseldi að ræða. Samkvæmt fyrirtækinu á að taka inn þrjár eldislotur á ári. Til að viðhalda vaxtahraða og halda niðri kynþroska þarf ljósastýringu. Markmið hennar er að herma eftir árstíðabundnu dagsljósi. Því er ljóst að ljósamengun frá eldinu verður mikil og stöðug allan sólarhringinn og allt árið um kring.
Í kafla 4.5.4 er fjallað um möguleg áhrif framkvæmdarinnar á landslag, ásýnd og sjónræna þætti. Þar er talað um að sjónræn áhrif bygginga landeldisins muni falla í skuggann af risabyggingum vegna fyrirhugaðrar rafeldsneytisframleiðslu á næstu lóð sem er í skipulagsferli en ekki búið að samþykkja. Hér má sjá einbeittan vilja til að hvítþvo verkefnið, við mótmælum því alfarið þessari staðhæfingu í skýrslunni, við teljum þvert á móti að samlegðaráhrif verði mjög mikil ef af verður. Það afsakar ekki hraðakstur að aðrir keyri hraðar, það ættu skýrsluhöfundar að vita. Skýrsluhöfundar telja að áhrif verksmiðjunnar verði „nokkuð neikvæð“, við teljum augljóst að áhrifin verði verulega neikvæð, a.m.k. sé litið til þess sjónarhorns sem íbúar í Kjósarhreppi búa við.
Mengun sjávar
Fyrirhuguðu fiskeldi mun fylgja gríðarlegt magn úrgangs, samkvæmt umhverfismatsskýrslu er gert ráð fyrir að við fullan rekstur muni skólphreinsivirki stöðvarinnar anna 150.000 persónueiningum (PE). Persónueining er staðlað hugtak í mengunarrétti og jafngildir skólpmagni eins íbúa. Þetta þýðir að úrgangur stöðvarinnar er sambærilegur heildarlosun Reykjavíkurborgar, en losunin er frá einum iðnaðarpunkti, ekki dreifðri borg. Það sem gerir málið enn alvarlegra er að landeldið er staðsett inni í firði en ekki við opið haf.
Í kafla 2.3.7 er fjallað um fráveitu og úrgang, þar kemur fram að framkvæmdaaðili geri ráð fyrir að nýta 75% úrgangs til framleiðslu lífgass annars vegar og hins vegar til framleiðslu íblöndunarefnis í áburð. Hvorug leiðin er fullþróuð og ekki er fyrirséð hvenær það verður né er lagalegur grundvöllur til staðar varðandi þessar aðferðir. Það er því ábyrgðarlaust að kasta þeim fram í skýrslu sem nota á til að meta umhverfisáhrif verkefnisins þar sem þetta er alls ekki í hendi en er þó eitt af meginskilyrðum starfsleyfis. Skýrsluhöfundar telja að viðtaki og lífríki í viðtaka verði fyrir „óverulegum áhrifum“, þá eru þeir að gefa sér rangar forsendur sem gagnast framkvæmdaaðila, þar sem eins og áður hefur komið fram sú leið sem þeir hyggjast fara til að endurvinna um 75% af þeim úrgangi sem fellur til er ekki fær. Þ.a.l. verður að gera ráð fyrir því að úrgangurinn fari allur í sjóinn.
Slysasleppingar
Laxá í Kjós er ein þekktasta og verðmætasta laxveiðiá Íslands með sterka náttúru-, menningar- og efnahagslega þýðingu fyrir Kjósarhrepp. Villtur lax gengur upp í ánna, erfðablöndun eða sjúkdómasmit frá eldislaxi væri alvarlegt og óafturkræft. Framkvæmdaaðili leggur upp með að hér sé um lokað landeldi að ræða, við nánari skoðun kemur í ljós að svo er ekki. Eins og hefur komið í ljós, þrátt fyrir fyrirbyggjandi aðgerðir, er mikil hætta á slysasleppingum þegar fiski er dælt í skip eða kvíar. Ein slysaslepping er of mikið og mun hafa óafturkræf áhrif á villtan lax á svæðinu.
Faxaflói og tengdir firðir hafa í stjórnsýsluframkvæmd og stefnumörkun stjórnvalda verið meðhöndlaðir sem verndarsvæði gegn fiskeldi með framandi laxastofnum vegna verndar villtra lax- og silungsstofna. Með fyrirhugaðri framkvæmd Aurora verður fluttur frjór norskur eldislax inn á friðunarsvæði og flutningi á lifandi fiski í opnu kerfi.
Ef/þegar strok verður við dælingu eða flutning í Hvalfirði eða Faxaflóa er raunhæft að eldislax gangi í nærliggjandi ár s.s. Laxá í Kjós, Elliðaár, Leirvogsá, Korpu, Brynjudalsá, Botnsá auk annarra laxveiðiáa við Faxaflóa sem teljast meðal bestu laxveiðiáa heims. Villti íslenski laxastofninn í heild telur aðeins 50–70 þúsund laxa, á meðan hundruð þúsunda eldislaxa eru fluttir í hverri lotu. Þetta er óásættanleg áhætta fyrir erfðafræðilega vernd og eignarrétt landeigenda.
Áhrif á atvinnustarfsemi í Kjós.
Uppbygging á Grundartangasvæðinu er komin að þolmörkum og ógnar atvinnustarfsemi í Kjósarhreppi. Í Kjósarhreppi eru meginatvinnuvegir matvælaframleiðsla í formi landbúnaðar og ferðamennska sem er ört vaxandi. Ferðaþjónusta og landbúnaður byggja í ríkum mæli á ósnortinni náttúru, hreinu umhverfi og jákvæðri ímynd. Þessum atvinnugreinum báðum stendur veruleg ógn af mengandi iðnaði á Grundartanga. Stærsti vinnustaðurinn í sveitarfélaginu er Sjóböðin í Hvammsvík, þar starfa í dag um 40 manns og innan tveggja ára er gert ráð fyrir að þar muni starfa um 80 manns. Sjóböðunum stendur veruleg ógn af mengun sjávarins í Hvalfirði, bæði raun og ýmindarlega.
Uppsöfnuð áhrif og viðkvæmni svæðisins
Við mat á framkvæmdinni virðist lögð áhersla á einstaka þætti en minna tillit tekið til uppsafnaðra áhrifa, nema þegar það hentar framgangi verkefnisins. Svæðið er þegar undir álagi af annarri starfsemi og mikilvægt er að horfa til heildarmyndar.
Landeldi af þessari stærðargráðu krefst mikillar orku, mikils vatnsmagns og losar verulegt magn úrgangsefna. Þótt einstakir mælikvarðar kunni að vera innan reglugerðarmarka er hætta á að samspil margra þátta leiði til hnignunar umhverfisgæða til lengri tíma.
Lokaorð
Umhverfismatsskýrslan er eins og áður segir unnin af Eflu fyrir framkvæmdaaðilann og er flókin 300 blaðsíðna upplýsingagjöf sem ekki er til þess fallin að almenningur geti lesið sér til gagns. Gerð er alvarleg athugasemd við fyrirkomulag kynningar á verkefninu, engin kynning hefur farið fram á vegum sveitarfélagsins Hvalfjarðarsveitar sem ætla má að geti verið hlutlaus upplýsingagjöf til íbúa og annarra hagsmunaaðila.
Engin markviss kynning eða samráð hefur farið fram við þá aðila sem verða fyrir mestum áhrifum. Þetta brýtur gegn 8. og 14. gr. laga nr. 111/2021.
Sveitarstjórn Kjósarhrepps leggst alfarið gegn framkvæmdinni eins og hún liggur fyrir og leggur áherslu á að ekki sé um lokað landeldi að ræða. Einnig setur sveitarstjórn stórt spurningarmerki við þau vinnubrögð sem viðhöfð eru við gerð umhverfismatsins og telur það vera hvítþvott í þágu framkvæmdaaðila.
Sveitarstjórn Kjósarhrepps