Vegleg gjöf til Reynivallakirkju
Í útivistar- og hestamannamessunni á sunnudaginn, 1.ágúst, var kirkjunni afhentur nýr hökull að gjöf. Gefendur eru þau Magnús Sæmundsson og Guðrún Ó Tómasdóttir Eyjum II í tilefni 150 ára afmæli Reynivallakirkju á síðasta ári. Gjöfin er til minningar um móður Magnúsar, Láru Magnúsdóttur húsfreyju að Eyjum II í Kjós eins og fram kemur í gjafabréfi en þar segir:
Lára Magnúsdóttir fæddist þann 10. mars 1896 að Lambhaga í Mosfellssveit en fluttist ung að aldri ásamt foreldrum sínum að Eyjum og bjó þar til æviloka, en hún lést þann 6. október 1959.
Í tilefni af 150 ára afmæli Reynivallakirkju viljum við færa kirkjunni að gjöf hátíðarhökul, stólu og klæði á prédikunarstól, hannað og ofið af Elínu Stefánsdóttur veflistarkonu, til minningar um Láru.
Guð blessi Reynivallakirkju, sóknarbörn og prest.
Magnús Sæmundsson, Guðrún Ó. Tómasdóttir.
Hökullinn er ofinn með damaskvefnaði þar sem uppistaðan er silki en ívafið ull, í munstri er einnig gullþráður. Munstur á baki hökulsins vísar til liljunnar sem er Maríutákn en Reynvallakirkja var frá fyrstu tíð helguð Maríu guðsmóður, á púltklæði, stólu og hökli að framan er krosstákn.
Séra Gunnar Kristjánsson, sóknarprestur þakkaði fyrir hönd safnaðarins þeim hjónum þessa veglegu gjöf sem ber vitni um hug þeirra hjóna til móður og tengdamóður, en jafnframt til kirkjunnar og kirkjustarfsins. Gjöfin verður kirkjunni til prýði og gefendum til sóma um ókomin ár.