Fara í efni

Vel sótt erindi um hernámsárin á bókasafnskvöldi í Ásgarði

Deila frétt:

Rúmlega 50 manns komu og hlýddu á Magnús Þór Hafsteinsson kynna bók sína „Dauðinn í Dumbshafi  - Íshafsskipalestirnar frá Hvalfirði og sjóhernaður í Norður-Íshafi“ á bókasafnskvöldi miðvikudaginn 28. mars í Ásgarði. Bókin fjallar m.a. um mikilvægi Hvalfjarðar í síðari heimsstyrjöldinni. Með erindi sínu sýndi Magnús einstakar breskar og þýskar kvikmyndir sem hafa ekki verið sýndar hér á landi fyrr af sjóhernaðinum í Norðurhöfum, úr Hvalfirði og af skipalest sem fór héðan haustið 1942 og bardögum um hana.

Farmskip Bandamanna söfnuðust yfirleitt saman í herskipalægi þeirra í Hvalfirði, og þaðan lá leiðin með herskipavernd norður og austur með Íslandi og norðaustur í haf til Norðvestur Rússlands. Hvalfjörður varð ein mikilvægasta flotastöð Bandamanna þar sem mikil umsvif voru í Kjósinni m. a. með bækistöðum í Hvammsvík og Hvítanesi.

Bókin „Dauðinn í Dumbshafi“ kom út fyrir síðustu jól og hefur hlotið góðar viðtökur lesenda og einróma lof gagnrýnenda. Bókin er væntanleg í kilju og geta áhugasamir haft samband við Kjósarstofu ef þeir vilja næla sér í eintak.