Fara í efni

Vel var mætt á kynningarfund um hitaveitu og ljósleiðara

Deila frétt:

 

Áform um lagningu 115 km hitaveitulagna og ljósleiðara um sveitina voru kynnt í gærkvöldi á fjölmennum opnum fundi í Félagsgarði. Vel var mætt bæði af íbúum og ekki síður af sumarhúsaeigendum.

 

Sigríður Klara, framkvæmdastjóri Kjósarveitna ehf, fór yfir forsöguna að jarðhitaleitinni, stöðuna í dag, væntanlega verðskrá og næstu skref.

Fyrirliggur að ganga þarf frá formlegri skuldbindingu, bæði íbúa og sumarhúsaeigenda, sem ætla sér að taka inn heitt vatn þegar að þeim kemur, til að lán fáist fyrir því sem upp á vantar. Auk þess er umfang verksins að þeirri stærðargráðu að lagnaefnið er útboðsskylt á evrópska efnahagssvæðinu. Stefnt er að útboði efnis, í samvinnu við Ríkiskaup, í nóvember 2015, þegar fullhönnun liggur fyrir og formlegar skuldbindingar. Í kjölfarið verður vinnan boðin út í janúar og ef allt gengur upp munu framkvæmdir hefjast í apríl á næsta ári og fyrstu hús að tengjast hitaveitunni haust 2016.

Mikið er rætt um landsátak í ljósleiðaravæðingu og mun sá framkvæmdaliður verða auglýstur innan tíðar í samráði við Póst- og Fjarskiptastofnun.

Áætlað er að lagning hitaveitu og ljósleiðara taki um tvö ár.

 

Bragi Þór Haraldsson, tæknifræðingur hjá verkfræðistofunni Stoð ehf fór síðan ítarlega yfir fyrstu tillögur að lagnaleiðinni, ástæður fyrir vali á ákv. leiðum og útreikninga á hita vatns á hverjum svæði fyrir sig.

 

Fundarmenn voru duglegir að spyrja í lok kynninganna enda mikið í húfi að vel sé haldið utan um verkefnið og hugað að öllum hliðum þess.

 

Kynninguna sem Sigríður Klara hélt á fundinum í gær má finna HÉR  

Kynning Braga Þórs mun birtast hér á heimasíðunni eftir helgi.

 

Frekari fyrirspurnum og athugasemdum skal koma til Sigríðar Klöru, á skrifstofu Kjósarhrepps eða á netfangið: sigridur@kjos.is

 

 

Áhuginn leyndi sér ekki í andliti fundargesta og almenn ánægja var eftir fundinn með stöðu verkefnisins Bragi Þór Haraldsson, tæknifræðingur hjá Stoð, fór yfir væntanlegt dreifikerfi