Fara í efni

Velheppnuð sveitahátíð

Deila frétt:

Kátt í Kjós 2014 tókst vel og var aðsókn síst minni en árin áður, þrátt fyrir blauta spá.

Að mati söluaðila í Félagsgarði var aðsókn svipuð og í fyrra en mun meira verslað, þeir eru því kátir með sitt. Um 100 manns mættu í Hvítanes til að fræðast um hernámsárin hjá Magnúsi Þór og á annan tug kom í Reynivallakirkju til að hlusta á erindi Sr. Gunnars Kristjánssonar um Þjóðskáldið í Kjósinni.

Í hjarta Kjósarinnar, Kaffi Kjós, var erill frá morgni til kvölds enda boðið upp á frítt kaffi og ástarpunga sem sviku ekki. Ekki frekar en hinir sívinsælu hjólabátar og hoppukastali. Handverkskonur við Meðalfellsvatn buðu heim og eru mjög hamingjusamar með daginn, vel sótt og góð sala.

Keppnin Ungi bóndi ársins vakti mikla lukku og ekki skemmdi fyrir að káti Kjósverjinn Hjalti Freyr Guðmundsson frá Miðdal hampaði titlinum í lokin. Hann var Kjósinni til sóma svo og aðrir sem tóku þátt í keppninni.

Heljarinnar stuð var á Sveitaballinu í Félagsgarði þar sem hljómsveitin Meginstreymi lék fyrir dansi og eftir að ballinu lauk gátu gestir notið útiverunna ásamt gítarleikara hljómsveitarinnar til morguns.

Kjósarhreppur þakkar kærlega fyrir daginn – sjáumst að ári

 

Doddi grillar. Hamborgarar frá Hálsi og Sogni runnu ljúft niður í gesti. Ljósm: Sævar Helgason

 

Vinningshafar 2014. Sigurliðið frá vinstri; Elín Eyjólfsdóttir, Steinunn Harpa Einarsdóttir, Orri Jónsson og Hjalti Freyr Guðmundsson. Hjalti stóð einnig uppi sem sigurverari í einstaklingskeppninni Ungi bóndi ársins 2014. Ljósm: Mariska van de Vosse
Kátir áhorfendur. Bændur á öllum aldri fylgdust með. Ljósm: Mariska van de Vosse
Sogn. Ungnautakjötið frá Snorra og Sveinu í Sogni fékk munnvatnið til að flæða. Ljósm: Sævar Helgason
Hjólabátar við Kaffi Kjós. Hjólabátarnir í Meðalfellsvatni og hoppukastalinn við Kaffi Kjós alltaf jafnvinsælt. Ljósm: Kaffi Kjós