Fara í efni

Velunnarar Kjósarréttar.

Deila frétt:

Stofnað var félag "Velunnara Kjósarréttar" sl. mánudag. Markmið félagsins er að endurreisa réttina í upprunalega mynd og þar verði hugsanlega hægt að rétta í framtíðinni. Hún verði  einnig góður kostur sem  áningastaður fyrir ferðamenn, en réttin stendur við forna þjóðleið frá Reykjavík og upp í Borgarfjörð.

Sagan: Á hreppsnefndarfundi 3. sept 1953 var ákveðið að halda almennan bændafund um byggingu nýrrar fjárréttar fyrir Kjósarhrepp. Tveir álitlegir staðir komu til greina, annar á melnum þar sem réttin stendur nú en hinn var á eyrunum, neðan Háamels, norðan Laxár.

Fimmtudaginn 12. maí 1955 var haldinn hreppsnefndarfundur við Svínadalsá en aðalmál fundarins var að  finna verðugan stað fyrir réttina. Jarðýta var á staðnum og var grafið niður á nokkrum stöðum til þess að kanna undirstöður. Var síðan ákveðið að byggja lögrétt fyrir Kjósarhrepp á fyrrnefndum mel og hófst verkið um leið og fundinum lauk.

Réttina teiknaði Páll Flygering, verkfræðingur og sá sem ráðinn var til að sjá um bygginguna var Njáll Guðmundsson frá Miðdal.

Fjáröflun vegna réttarbyggingarinnar var þannig háttað að innkallaðar voru kr. 500.- af hverju býli í hreppnum og lán tekið upp á kr. 50.000.-

Fyrst var réttað í hinni nýju rétt haustið 1955 og var réttarstjórinn þá Hannes Guðbrandsson frá Hækingsdal.