Fara í efni

Vinna hafin við lokaáfanga ljósleiðaravæðingar í Kjósarhreppi

Deila frétt:
Jón Ingileifsson og félagar mættir gallvaskir í Kjósina.
Jón Ingileifsson og félagar mættir gallvaskir í Kjósina.

Þriðji og síðasti áfangi í lagningu ljósleiðara í Kjósinni er hafinn.

Jón Ingileifsson og hans menn eru mættir og byrjaðir að plægja niður ídráttarrör fyrir ljósleiðarann frá Hvammsvík inn að Ingunnarstöðum í Brynjudal.

Jón er reyndur verktaki í lagningu ljósleiðara víða um land og þekkir Kjósina mjög vel. Hann sá um lagningu hitaveitu- og ídráttarröra fyrir ljósleiðarann í frístundahúsahverfin í Kjósinni 2016-2017. Auk þess sem Jón og hans menn sáu um lagningu ljósleiðararöra frá Grundarhverfi á Kjalarnesi og upp í Kjós fyrir ári síðan.

Vinnuhópurinn hefur bakistöðvar í íbúðinni í Ásgarði yfir verktímann og ætlar sér að vinna hratt og vel þennan lokakafla sem er um 15 km.

Þegar jarðvinnu er lokið munu verktakar frá Rafal taka við til að  blása ljósleiðaraþræðinum í rörin og tengja í brunnum.

Þeir sem ætla sér að fá ljósleiðara eða hitaveitu á næstunni en eru ekki búnir að sækja um, ættu að drífa sig, því þetta verða lokaframkvæmdirnar í vetur. 

Með Kjósarkveðju
Sigríður Klara Árnadóttir
Framkvæmdastjóri Kjósarveitna & Leiðarljóss