Yfirlýsing og skuldbinding vegna hitaveitu er á leiðinni í pósti !
Þessa dagana er verið að setja í póst kynningarbréf, ásamt yfirlýsingu um þátttöku í hitaveitu og skuldbinding um tengingu fasteignar við væntanlega hitaveitulögn í Kjósinni. Meðfylgjandi er síðan ýmist viðkauki 1a vegna íbúðarhúsa eða viðauki 1b vegna sumarhúsa. Þessu þarf að svara og senda til baka í meðfylgjandi svarumslagi,
í síðasta lagi 10. mars nk.
Gjaldskráin er mjög einföld vegna heimæðargjalds (tengigjalds) við frumlagningu hitaveitunnar:
- Íbúðarhús og aðrar fasteignir en sumarhús = 1.400.000 kr, innifalinn er 11% vsk (verða tengd með orkumæli)
- Sumarhús = 890.000 kr, innifalinn er 11% vsk (verða tengd með hemli, 3 l/m)
Ekki er rukkað auka rúmmetragjald fyrir eignir yfir 300 m3, eins og tíðkast víða.
Gjalddagi heimæðargjalds er 3 mánuðum fyrir áætlaða tengingu á viðkomandi svæði.
í byrjun er innifalið í tengigjaldinu ein tenging við hverja eign óháð fjarlægð frá stofnlögn og gert ráð fyrir að hverri tengingu fylgi einn mælir/hemill.
Kjósarveitur skila lögn að húsi. Fasteignaeigandi tekur þar við og tengir við viðurkennda tengigrind (sem hann kaupir sjálfur), sér um varmaskipti þar sem það á við og ber ábyrgð á sínum innanhúslögnum. Nánari leiðbeiningar verða kynntar síðar, það er um að gera að koma sér í samband við pípara sem fyrst.
Tími framkvæmda verða árin 2016-2017. Grófa verkplanið er að byrja upp á borholusvæðinu í apríl 2016 og leggja lagnir sem leið liggur niður að Meðalfellsvatni, í byggðina kringum það og áleiðs vestur að Hvalfirði í byggðina þar. Önnur svæði koma inn árið 2017.
Teikningar af lagnaleiðinni eru HÉR , þar má átta sig betur á svæðaskiptingu.
Nú stendur yfir útboð á vinnunni og ræðst það aðeins af þeim verktaka sem fær verkið hvað hægt verður að leggja mikið af lögnum á fyrra árinu. Vonir standa til að auk þess sem áður er nefnt á verkplani 2016, verði hægt að byrja á sumarhúsahverfinu í Eilífsdal og taka norðurhluta hverfisins 2016 og klára hverfið 2017.
Þátttaka á hverju svæði fyrir sig getur líka haft áhrif á röð verkþátta. Þegar verkplanið liggur fyrir verður það kynnt rækilega.
Gjaldskrá fyrir heita vatnið sjálft, liggur ekki fyrir. Gjaldskráin er háð þátttöku, auk samþykkis ráðuneytis og verður gjaldskráin kynnt eins fljótt og auðið er. Leitast verður við að hafa gjaldskrána eins sanngjarna og kostur er með tilliti til þeirra reglna sem gjaldskrár veitufyrirtækja lúta og þess sem almennt gildir í rekstri.
Ljósleiðari verður lagður samhliða hitaveitunni og er verið að vinna að samningum þar að lútandi. Um leið og þau mál skýrast varðandi kostnað og tengitíma, verður upplýsingum komið til allra.
Það tekur tíma að koma viðeigandi gögnum í umslög og koma þeim til réttra aðila, rúmlega 800 sendingar eru að fara út á næstu dögum og er fyrsti skammturinn farinn í póst. Þeir sem búa í útlöndum fá sín eyðublöð í tölvupósti og þurfa að prenta út eyðublöðin, undirrita og senda í pósti, því að Kjósarveitur þurfa að vera með frumritið undirritað skv. regluglerð.
Ef einhverjir sakna þess að hafa ekki fengið með Póstinum kynningarbréf frá Kjósarveitum, ásamt yfirlýsingu um þátttöku í hitaveitu, í byrjun mars, þá vinsamlega látið vita á netfangið: sigridur@kjos.is
Með kveðju
Sigríður Klara Árnadóttir
framkvæmdastjóri Kjósarveitna