Fara í efni

Samgöngu- og fjarskiptanefnd

402. fundur 21. mars 2012 kl. 12:42 - 12:42 Eldri-fundur

Samgöngu- og fjarskiptanefnd
Dags: 12. mars 2012, kl. 20:35
Mætt: Sigurður Ásgeirsson (Hrosshóli), Einar Hreiðarsson (Traðarholti), Sigríður Klara Árnadóttir (Klörustöðum)
Fundarstaður: Ásgarðsskóli

Fjarskiptamál

1.       Kristján Hafsteinsson, Ingvar Bjarnason og Brjánn Jónsson, frá Símafélaginu komu á íbúafund í Kjósinni 1. mars sl. fyrir milligöngu nefndarinnar, til að kynna farsímaþjónustu sína. Íbúum var tíðrætt um skort á fjarskiptaþjónustu; GSM-þjónustu, heimasíma og nettengingum. Varðandi nettengingar virðist sem ljósleiðari sé eina leiðin sem ekki er háð veðráttu og landslagi, en hins vegar er sú leið háð fjarlægð frá aðaltengistöðum. Hvalfjarðarsveitin er farin af stað að kanna málið og hefur ráðið verkfræðistofuna EFLU í verkið. Nefndarmenn munu að sækja sér upplýsingar þangað, bæði til Hvalfjarðarsveitar og Eflu, varðandi kostnað og samlegðar áhrif. Fyrirliggur að þetta eru talsverðar framkvæmdir og kostnaðarsamar vegna þess hve Kjósin er dreifð.

2.       Nefndarmenn ræddu um heimasímamál við starfsmann Mílu, Ketilbjörn, sem nýlega er fluttur í Kjósina. Honum vitandi er ekkert verið að vinna að frekari lagfæringum á línum fyrir heimasíma, en margir íbúar eiga í erfiðleikum með að nota heimasímann vegna skruðninga og truflana á símalínunni – heyra hreinlega ekki í viðmælanda sínum. Koma verður á fundi með forsvarsmönnum Mílu og hreppsnefndinni.

3.       Nefndin fjallaði um þingsályktunar um tólf ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011--2022,  342. mál, sent af Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis. Erfitt að sjá hvernig þetta nýtist í Kjósinni þar sem ýmist eru skilgreind landsvæði með að lágmarki 1.000 í búa eða byggðakjarna með að lágmarki 50 í búa.

4.       Senda þarf inn formlega kvörtun til Póst-og fjarskiptastofnunar varðandi fjarskiptamálin í Kjósinni og fá svör hvað sé framundan í þeim málum. Telja má að nær 40% Kjósverja eru án fjarskiptasambands af einhverju tagi.

Samgöngumál

1.       Veturinn 2011-2012, hefur verið sá snjóþyngsti í nær 30 ár og hefur Jón á Hálsi bjargða miklu varðandi það að halda samgöngum opnum í Kjósinni. Jón vinnur bæði fyrir hreppinn og Vegagerðina og er ómetanlegt fyrir sveitarfélagið að fá aðila sem þekkir til aðstæðna til að sjá um verkið.

2.       Vegagerðin hefur ekki staðið við gefið loforð varðandi vinnslu á efni fyrir Kjósarskarðsveg og lítið um svör frá þeim í Borgarnesi.

3.       Lítið hefur verið um efndir Vegagerðarinnar í Borgarnesi varðandi lagfæringar á ristarhliðum og vegatengingum í Kjósinni. Ætíð borið við niðurskurði og samdrætti á viðhaldi. Formaður nefndarinnar mun halda áfram ótrauður að minna á nauðsynlegar úrbætur.

4.       Nefndin fjallaði um frumvarp til laga, sent af Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis, um fjögurra ára samgönguáætlun 2011-2014, 392. mál og 343. mál. Þetta er að mati nefndarinnar hvorki fugl né fiskur, mest fjallað um heimildir til að fresta málum eftir því sem fjármál leyfa.

Fundi slitið, kl. 22:03
Sigríður Klara Árnadóttir
ritari