Fara í efni

Samgöngu- og fjarskiptanefnd

149. fundur 18. desember 2006 kl. 14:14 - 14:14 Eldri-fundur

3. fundur í upplýsinga og fjarskiptanefnd.

Haldinn í Ásgarði þann 18.12.2006 .

 

Mætt voru þau Hlöðver Ólafson, Jóhanna Hreinsdóttir og Þórarinn Jónsson.

Dagskrá fundarins var í fyrsta lagi e-Max. Í öðru lagi kynning formanns á fundi Fjarskiptasjóðs og í þriðja lagi heimasíðan, kjós.is

 

1.mál: e-Max.

Formaður greindi frá stöðu mála varðandi samning Kjósarhrepps og e-Max um uppsetningu á þráðlausu neti um sveitina. Búið er að setja upp alla senda í sveitinni og þar með geta allir sem áhuga hafa tengst e-Max. Ekki liggur fyrir hve margir hafa nú þegar tengst en flestir eru allavega tengdir eða búnir að sækja um tengingu. Einhverjar tafir urðu á framkvæmdinni og þegar formaður leitaði skýringa hjá e-Max  fékk hann bréf um hæl frá framkvæmdastjóra e-Max og ákvað nefndin að birta bréfið í heild sinni. Bréfið er svohljóðandi:

 

 

“Fjarskiptanefnd Kjósarhrepps

B.t. Hlöðver Ólafsson

 

Efni: Tafir á uppsetningu senda í Kjósarhreppi og staðan í dag.

 

Tafir:

Um leið og eMax ehf harmar þær tafir sem orðið hafa á uppsetningu senda í Kjósarhreppi viljum við skýra helstu ástæður þessara tafa.

Í október bilaði búnaður sem nýbúið var að setja upp á leiðinni Mörk-Valdastaðir-Möðruvellir. Einhver galli var í búnaðinum. Um svipað leiti biluðu 2 linkar í Húnavatnssýslu í þrumuveðri. Varabúnaðurinn sem við áttum fór í að koma sambandinu í Húnavatnssýslu í gang enda tugir notenda tengdir á því svæði. Okkar birgi í Bretlandi átti ekki búnað á lager og það tók 3 vikur að fá búnað til landsins. Þegar búnaðurinn kom var farið upp í kjós að setja upp en þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir fékkst ekki merki gegnum búnaðinn. Eftir að hafa verið ítrekað í sambandi við birgjann okkar í Bretlandi og eins framleiðandann í Singapure viðurkenndu þeir loksins að það væri galli í hugbúnaði og gat framleiðandinn uppfært búnaðinn yfir netið.

Á þessum tímapunkti voru liðnar um 5 vikur frá því að búnaðurinn bilaði.

 

 

Staðan í dag:

Í dag er búið að setja upp alla senda og endurvarpa sem setja á upp í Kjós, og ættu því allir íbúar svæðisins að geta tengst. Við munum á næstu vikum vinna í því að tengja notendur á svæðinu.

eMax ehf hefur einnig sett upp búnað í Mörk sem sér um að jafna bandbreidd á milli notenda. Búnaðurinn dregur úr hættunni á því að þeir sem eru í miklu niður (og upp-) hali taki til sín stóran hluta af bandbreiddinni á svæðinu sem aftur þýðir að sumir eru með lítinn hraða. Þessi búnaður hefur reynst vel og ætlum við að setja hann upp á fleiri stöðum á landinu.

 

 

Fh.

eMax ehf

 

Hákon Óli Guðmundsson, framkvæmdastjóri “

 Þrátt fyrir fyrir ýmsa erfiðleika eru nokkrir staðir hér í Kjósinni þar sem aldrei hafa verið vandamál  með nettenginguna s.s. Kiðafell og ýmsir staðir í Harðbalahverfi.

 

 

2. Mál kynning formanns á efni fundar Fjarskiptasjóðs í Borgarnesi.

Þann 7 desember 2006 var haldinn vinnufundur með stjórn Fjarskiptasjóðs í ráðhúsinu í Borgarnesi. Boðaðir voru bæjar og sveitastjórar frá Kjósarhreppi vestur í Dalabyggð og Snæfellsnes.

Hlöðver mætti fyrir hönd Kjósarhrepps.

Kynntar voru framkvæmdaráætlanir varðandi uppbyggingu GSM nets við þjóðveg 1 og helstu stofnvegi, þéttbýliskjarna og helstu ferðamannastaða. Reiknað er með að uppbyggingunni verði að mestu lokið fyrir árslok 2008.  Fundarmönnum voru sýnd kort yfir þá staði sem eru á áætlun og  benti Hlöðver á að Kjósarskarðsvegur var ekki á áætlun þó að hann hafi sannað mikilvægi sitt sem varavegur þegar Kjalarnes lokast.  Athugasemdunum var vel tekið og verður þeim komið til réttra aðila.

Á fundinum kom einnig fram að stefnt er að því að skrifað verði undir samning um áramót að RÚV hafi afnot af gervihnetti til útsendinga (sjónvarps og útvarps). Verði raunin sú að RÚV fái afnot af gervihnetti eiga 98% landsmanna kost á að ná (digital) útsendingum RÚV með miklum myndgæðum. Móttökubúnaður mun kosta einhverja tugi þúsunda og skapaðist umræða um hvort ríkið kæmi til móts við notendur í dreifbýli.

Háhraðtenging var líka á dagskránni og kom fram að markmiðið er að allir landsmenn verði komnir með háhraðatenginguí árslok 2007.

Óskað verður eftir að sveitarfélög myndu kortleggja heimili/bæi sem ekki hafa háhraðatengingu og kanni hvort aðilar hafi áhuga á slíkri tengingu og hvort menn séu tilbúnir að skuldbinda sig til að kaupa þjónustuna í nokkra mánuði. Sveitarfélögin fá innan skamms sendan lista með spurningum og þeim atriðum sem óskað er eftir að könnuð verði. Sú skilgreining sem notuð er í dag um hvað háhraðatenging er, er sú að allt sem er hraðara en ISDN, er háhraðatenging.

 

3. Mál. Kjos.is

Formaður sagði frá því að haldinn var fundur með Erni vefstjóra kjos.is þar sem einnig voru mættir Hermann Ingólfsson, Sigurbjörn Hjaltason og Hlöðver Ólafsson.

Rætt var um framtíðarfyrirkomulag vefsíðunnar kjos.is. Hugmyndir um að starfsmenn hreppsins sæju um að setja inn tilkynningar og fundargerðir á heimasíðuna fela í sér kröfu um töluvert breytt fyrirkomulag á vefstjórn. Örn gerði mönnum grein fyrir því að töluverða kunnáttu í notkun vefhönnunar forrita þarf til að geta uppfært kjos.is eins og síðan er í dag. Það var því ákveðið að kanna að gjörbreyta fyrirkomulagi síðunnar, hafa samband við fyrirtæki sem sérhæfa sig í smíða vefi sem sem gera leikmönnum kleift að sjá að mestu leyti um vefstjórn. Formaður er nú þegar búinn að setja sig í samband við einhver fyrirtæki og kanna kostnað, þjónustu o.þ.h.

Formaður boðar sennilega fljótlega til fundar á nýju ári og kynnir niðurstöðuna.

 

Fleira var svo ekki bókað og fundi var slitið.