Fara í efni

Skipulags- og byggingarnefnd

156. fundur 28. mars 2022 kl. 17:00 - 18:45 stóra fundarsal m. skjá
Nefndarmenn
  • Þórarinn Jónsson varamaður
    Aðalmaður: Maríanna Hugrún Helgadóttir
  • Magnús Ingi Kristmannsson formaður
  • Elís Guðmundsson ritari
Starfsmenn
  • Sigurður Hilmar Ólafsson byggingafulltrúi
  • Karl Magnús Kristjánsson oddviti
  • Helena Ósk Óskarsdóttir aðstoðarmaður byggingarfulltrúa
Fundargerð ritaði: Sigurður Hilmar Ólafsson skipulags- og byggingarfulltrúi
Dagskrá
Skipulagsmál:

1.Breyting á aðal- og deiliskipulagi fyrir svæði 18a í landi Valdastaða

2110045

Efla verkfræðistofa, f.h. Kjósarhrepps, leggur fram tillögu, dags. 17.03.2022, á breytingu á Aðalskipulagi Kjósarhrepps 2017-2029, er varðar landnotkun í landi Valdastaða. Verkefnislýsing hefur verið auglýst skv. 1. mgr. 30 gr. skipulagslaga. Umsagnir við lýsinguna bárust frá Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun, Minjastofnun, Heilbrigðiseftirliti, Vegagerðinni, Rarik, Veðurstofu Íslands, Veiðifélagi Kjósarhrepps og ein athugasemd barst frá almenningi og hefur verið brugðist við þeim.

Aðalskipulagsbreytingin felur í sér að skilgreint verður þéttbýli, Ásgarðsland. Svæðið er að stærstum hluta norðan Kjósaskarðsvegar en nú þegar er starfsemi s.s. stjórnsýsla sveitarfélagsins sunnan vegar. Núverandi landnotkun breytist, fellt er út frístundabyggð, efnistökusvæði og landbúnaðarland minnkar en í stað þess verður skilgreint íbúðarbyggð, stofnanasvæði, opið svæði auk þjónustu sem fyrir er á svæðinu.

Markmið skipulagsbreytingarinnar er að svara aukinni eftirspurn fyrir lóðir í dreifbýli nálægt höfuðborgarsvæðinu í samræmi við áherslur sveitarstjórnar um eflingu byggðar í Kjós og fjölgun íbúa á skipulagstímabilinu með því að tryggja að til staðar sé gott framboð íbúðarlóða. Sveitarfélagið hefur þessu tengt fest kaup á tæplega 80 ha svæði úr landi Valdstaða og áformar að skipuleggja það og byggja upp í áföngum á næstu árum. Sveitarstjórn leggur eftir sem áður áherslu á að viðhalda dreifbýlisyfirbragði í sveitarfélaginu, en stuðla samtímis að betri landnýtingu og hagkvæmari uppbyggingu íbúðarbyggð með bættri nýtingu innviða.

í samræmi við 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga, var tillagan kynnt íbúum sveitarfélagsins og öðrum hagsmunaaðilum á almennum fundi í Félagsgarði í Kjós, þann 19. mars 2022. Þá hefur tillagan einnig verið kynnt nærliggjandi sveitarfélögum, sem og svæðisskipulagsnefnd höfðuðborgarsvæðisins. Þá hefur skipulagstillagan verið aðgengileg á vef kjósarhrepps, kjos.is.
Niðurstaða:
Samþykkt
Nefndin leggur til við sveitarstjórn að senda Skipulagsstofnun tillöguna til athugunar, sbr. 3. mgr. 30. gr. skipulagslaga og að auglýsa aðalskipulagsbreytinguna í framhaldinu í samræmi 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

2.Nýtt deiliskipulag í landi Flekkudals - Nesvegur 1, 3 og 5

2110048

Skipulagsfulltrúi sendi Skipulagsstofnun bréf dags. 10. febrúar 2022, skv. 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga, varðandi málsmeðferð deiliskipulags í landi Flekkudals - Nesvegur 1, 3 og 5, þar sem óskað var eftir heimild til að auglýsa gildistöku deiliskipulagsins í B- deild stjórnartíðinda.
Svar barst með bréfi, dags. 10. mars 2022. Þar kemur m.a. fram að: "stofnunin lítur svo á að ekki sé um stök hús á landbúnaðarlandi að ræða, heldur stækkun á aðliggjandi frístundasvæði (F4a). Lóðir fyrirhugaðra frístundahúsa liggi upp að núverandi frístundasvæði og gert sé ráð fyrir að þau nýti aðkomu þess".
Samkvæmt svari Skipulagsstofnunar væri þörf á (óverulegri) breytingu aðalskipulags. Meðfylgjandi er tillaga að aðalskipulagsbreytingu frá Eflu, sem er eingöngu breyting á greinargerð.
Niðurstaða:
Samþykkt
Nefndin telur að um óverulega breytingu aðalskipulags sé að ræða, sbr. 2. mgr. 36. gr. Skipulagslaga. þ.e. einungis er gerð textabreyting og að skilmálum fyrir frístundabyggðina F4a sé breytt, en uppdráttur helst óbreyttur. Þá sé um að ræða stækkun aðliggjandi frístundabyggðar úr 2 ha í allt að 3,5 ha, sem heimili 8 lóðir í stað 5 áður og gert sé ráð fyrir að nýta aðkomu og veitukerfi frístundasvæðis sem fyrir er.
Nefndin leggur því til við Hreppsnefnd að samþykkja aðalskipulagsbreytinguna í samræmi við sbr. 2. mgr. 36. gr. Skipulagslaga nr. 123/2010.

3.Deiliskipulag fyrir frístundalóðir í landi Flekkudals

2203043

Efla verkfræðistofa, fyrir hönd landeiganda, óskar eftir heimild til að leggja fram breytingu á fyrirliggjandi deiliskipulagi í landi Flekkudals (L126038). Um er að ræða 8 frístundalóðir til viðbótar. Aðliggjandi svæði var deiliskipulagt fyrir samskonar byggð árið 2015. Einnig er óskað eftir að sveitarfélagið geri breytingu á Aðalskipulagi Kjósahrepps 2017-2029 og stækki svæði fyrir frístundabyggð F4b um ca 2,5 ha til að fyrirhugaðar lóðir falli alfarið undir frístundabyggðina. Meðfylgjandi er uppráttur sem sýnir fyrirhugaða afmörkun lóða og gátlisti fyrir mati á því hvort breytingin geti talist óveruleg skv. 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Niðurstaða:
Samþykkt
Nefndin samþykkir og leggur til við Hreppsnefnd að heimila breytingu deiliskipulags fyrir 8 frístundalóðir til viðbótar í landi Flekkudals og að gerð verði óveruleg breyting á aðalskipulagi sbr. 2. mgr. 36. gr. Skipulagslaga nr. 123/2010.
Þó með þeim fyrirvara að eigandi íbúðarhúsalóðarinnar Fálkahreiður, L219789, geri ekki athugasemd við fyrirhugaða uppbyggingu.

4.Nesvegur 8 og 10 - Breyting deiliskipulags

2202026

Landlínur, fyrir hönd eigenda, leggja fram tillögu að óverulegri breytingu frístundabyggðar á Nesi í Flekkudal, dags. 03.03.2022.
Breytingin nær einungis til Nesvegar 8 og 10 og tekur einungis til hluta liðs "Byggingarskilmálar" í greinargerð deiliskipulags, þ.e. þakhalla og mænisstefnu.

Í kjölfar afgreiðslu á 155. fundi nefndarinnar, barst athugasemd frá eiganda Nesvegar 6 er varðaði textaframsetningu. Texti í greinargerð hefur verið nú verið lagfærður til samræmingar við athugasemdina.
Niðurstaða:
Samþykkt
Nefndin telur að um óverulega breytingu sé um að ræða og leggur til við Hreppsnefnd að málið hljóti afgreiðslu í samræmi við 3. mgr. 43. gr. Skipulagslaga.

5.Deiliskipulag, Eyrarkot

2104037

Skipulagsfulltrúi sendi Skipulagsstofnun bréf dags. 1. febrúar 2022, skv. 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga, varðandi málsmeðferð deiliskipulags íbúabyggðar og nágrennis í landi Eyrarkots, þar sem óskað var eftir heimild til að auglýsa gildistöku deiliskipulagsins í B- deild stjórnartíðinda.
Svar barst með bréfi, dags. 10. mars 2022. Þar kemur m.a. fram í svari skipulagsstofnunar að: "ekki sé ljóst hvernig brugðist hafi verið við athugasemdum landeigenda að Bolakletti, dags. 25. júní 2021". Einnig að: "stofnunin mælir með að deiliskipulagsmörk nái niður að Hvalfjarðarvegi til að tryggja aðkomu að nýju íbúðasvæði. Til þess að tryggja aðkomu þarf að setja kvöð um aðkomu frá Hvalfjarðarvegi að Blómsturvöllum í samráði við nærliggjandi landeigendur".
Niðurstaða:
Staðfest
Nefndin upplýsir að eftir móttöku á bréfi Skipulagsstofnunar dags. 10. mars 2022, þá kom Skipulagsfulltrúi eftirfarandi á framfæri til Skipulagsstofnunar í tölvupósti þann 22. mars 2022, varðandi tvær síðustu málsgreinar í bréfinu:
"Upphaflega var brugðist við þeim athugasemdum með þeim hætti, að lögmanni eigenda Bolakletts var send umsögn sveitarstjórnar í tölvupósti þann 22. des. 2021. Ekki barst svar við þeim tölvupósti.
Í kjölfar bréfs Skipulagsstofnunar var lögmanni eigenda aftur sendur tölvupóstur, dags. 15. mars 2022, með nánari umsögn/útskýringum um hvernig eignarhaldi vegarins er háttað (Hólmahjallaveg sem nú heitir Bolaklettavegur nr. 4989).
Óskað var eftir viðbrögðum innan viku frá dagsetningu tölvupóstsins. Ekki barst svar innan tilkynnts tímafrests. Meðfylgjandi er afrit af þeim tölvupóstsamskiptum.

Þá er hér einnig afrit af tölvupósti vegna grenndarkynningar frá árinu 2020, vegna byggingar íbúðarhúss í Snorravík. Þar var eigendum Bolakletta (einnig) gerð grein fyrir hvernig eignarhaldi vegarins væri háttað.

Varðandi tengingu Blómstursvalla inn á Bolaklettaveg þá liggja deiliskipulagssvæðin saman. Bolaklettsvegur er á forræði Vegagerðarinnar sem eindregið hefur mælt fyrir um að tengingingar verði með þeim hætti sem skipulagið fyrir Blómstursvelli gerir ráð fyrir. Eigendur Eyrar hafa ekki sett sig upp á móti, enda ekki gert athugasemdir í skipulagsferlinu. Þar að auki er vegurinn á forræði VR og veghelgunnarsvæði nær inn á skipulagssvæðið fyrir Blómstursvelli, hugsanlega. Ekki verður því séð að það þurfi sérstaka kvöð eða þá að deiliskipulagssvæðið ná að Hvalfjarðarvegi".

6.Deiliskipulag á neðri hluta jarðarinnar Hvítaness

2109055

Arkþing/Nordic og Gláma Kím, fyrir hönd landeiganda, leggja fram tillögu að deiliskipulagi, dags. 2.3.2022, í samræmi við skipulagslýsingu sömu aðila.
Um er að ræða skilgreiningu á nýjum byggingarlóðum nyrst á Hvítanesi, alls um 5,0 ha að stærð. Gert er ráð fyrir íbúðarhúsi, frístundahúsum, gestahúsum, bryggjuhúsi ásamt fjölnotahúsum ( hlaða, veisluhús, gróðurhús, skemmu eða verkstæði).

Fyrir liggur að sækja þarf um undanþágu til Innviðaráðuneytisins frá grein 5.3.2.14. gr. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 varðandi fjarlægðar mannvirkja nær vötnum ám eða sjó en 50 m.
Niðurstaða:
Samþykkt
Nefndin leggur til að hreppsnefnd samþykki að auglýsa deiliskipulagstillöguna í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og að sækja um undanþágu frá grein 5.3.2.14. gr. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 varðandi fjarlægðar mannvirkja nær vötnum ám eða sjó en 50 m.

Nefndin er meðvituð um að í deiliskipulagstillögunni fyrir Hvítanes, séu hluti byggingarreita innan við 50 metra frá sjó.
Því þyrfti að sækja þarf um undanþágu til Innviðaráðuneytisins frá grein 5.3.2.14. gr. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 varðandi fjarlægðar mannvirkja nær vötnum ám eða sjó en 50 m.
Í nýju deiliskipulagi fyrir uppbyggingu á Hvítanesi er byggingarreitur fyrir bryggju og bryggjuhús vestan til á Hvítanesi þar sem áður stóð bryggja og enn má sjá ummerki um undirstöður hennar.
Ríkjandi vindáttir á Hvítanesi eru austlægar þannig að fyrrgreindur staður hentar mjög vel fyrir bryggju og bryggjuhús.
Ósk er um að byggja einfalda tré- og flotbryggju á núverandi undirstöðum og bryggjuhús á eða við bryggjuna og tryggja þannig möguleika eigenda á aðnýta landkosti eignar sinnar. Fyrirhuguð bryggja liggur neðan við klettabrún strandarinnar að stórgrýttri fjöru sem er illfær og hættuleg, göngustígur mun liggja uppi á brúninni, fyrirhuguð framkvæmd mun því ekki hindra aðkomu og göngu meðfram sjónum.

7.Nýtt deiliskipulag Sandslundar

2110056

Tillaga að nýju deiliskipulagi Sandsludar hefur verið auglýst skv. 41 gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Frestur til að skila inn athugasemdum var til og með 25. mars 2022. Engar athugasemdir bárust.
Umsagnir bárust frá Umhverfisstofnun, Heilbrigðiseftirliti, Náttúrufræðistofnun, Vegagerðinni, Veðurstofunni og Minjastofnun. Í umsögn Minjastofnunar er farið fram á að fyrirliggjandi fornleifaskrá verði uppfærð á skipulagssvæðinu, í samræmi við núgildandi staðla og reglur Minjastofnunar, sbr.reglur um skráningu jarðfastra menningarminja vegna skipulags og framkvæmda nr. 620/2019.
Skipulagsfulltrúi hefur komið umsögnunum á framfæri við skipulagsráðgjafana til efnislegrar úrvinnslu.

Sótt hefur verið um undanþágu til Innviðaráðuneytisins, frá 5.3.2.14. gr. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 vegna nálægðar við Sandsá.
Niðurstaða:
Frestað

8.Stapagljúfur - Breytt deiliskipulag

2102057

VA arkitektar leggja fram tillögu að deiliskipulagsbreytingu, dags.15.01.2022, vegna byggingar á u.þ.b 400,0 m² gróðurhúsi. Áður á dagskrá 145. fundar þann 25. mars 2021, þar sem jákvætt var tekið í erindið. Breytingin felst í því að lóðin við Stapagljúfur í landi Morastaða sem áður var ein 8,15 ha lóð, verður skipt í tvær lóðir. Sú minni verður 0,45 ha. með einum byggingarreit íbúðarhús, en sú stærri 7,36 ha. með þremur byggingarreitum, tveir fyrir frístundahús og einn fyrir gróðurhús. Að öðru leiti gilda almennir skilmálar fyrri deiliskipulags. Frestað mál frá 154. fundi.
Niðurstaða:
Samþykkt
Nefndin leggur til að Hreppsnefnd samþykki deiliskipulagsbreytinguna í samræmi við 2. mgr. 43. gr. og 3. mgr. 44 gr. Skipulagslaga nr. 123/2010.

9.Eyjatún 25, L 173144 - Fyrirspurn um breytingu á deiliskipulagi.

2203023

Fyrirspurn um breytingu á deiliskipulagi í landi Eyjatúns 25, L173144. Afmörkun og stærð lóðar hefur verið mæld/hnitsett og stækkar sem nemur 900 m². Til að uppfæra stærð og afmörkun lóðarinnar í fasteignaskrá Þjóðskrár, þyrfti að koma til breyting á deiliskipulagi. Einnig er spurst fyrir um að breyta lóðinni úr sumarhúsalóð í íbúðarhúsalóð.
Niðurstaða:
Samþykkt
Nefndin leggur til að Hreppsnefnd samþykki deiliskipulagsbreytingu í samræmi við 2. mgr. 43. gr. og 3. mgr. 44 gr. Skipulagslaga nr. 123/2010. Breyting á stærð og afmörkun lóðar er samþykkt, með fyrirvara um að fyrir liggi hnitsettur uppdráttur og að umsókn sé undirrituð af eiganda eða eigendum upprunafasteignar, sbr. 14. gr. laga nr. 6/2001.
Að breyta frístundalóð í íbúðarhúsalóð samræmist hvorki gildandi deili- eða aðalskipulagi.

10.Deiliskipulag frístundabyggðar - Brekkur

2103068

Deiliskipulag frístundabyggðar Brekkna, sem samþykkt var á fundi sveitarstjórnar 12. janúar 2022, var auglýst til gildistöku gildistöku í B- deild Stjórnartíðinda þann 22. mars 2022.
Niðurstaða:
Lagt fram

11.Kaffi Kjós, L173107 - Umsókn um breytingu á skráningu lóðar

2203042

Um er að ræða leiðréttingu á afmörkun lóðar fyrir Kaffi Kjós við Meðalfellsveg, L173107. Afmörkun lóðar var samþykkt af byggingafulltrúa Kjósarhrepps í febrúar 1994, af oddvita Kjósarhrepps þann 6. október 1997 og jarðanefnd þann 7. október 1997 sbr. skjali "Eyjar 1 1606 Kjósarhreppur". Stærð lóðar er 3.500 m2 og breytist ekki. En lögun lóðarinnar er önnur og verður það leiðrétt með þessu skjali. Fjarlægð frá miðlínu Meðalfellsvegar (461) er 15 m og liggja lóðamörk samsíða veginum eins og fram kemur á skjalinu frá 1994.





Niðurstaða:
Samþykkt
Breyting á afmörkun lóðar er samþykkt, með fyrirvara um að fyrir liggi hnitsettur uppdráttur og að umsókn sé undirrituð af eiganda eða eigendum upprunafasteignar, sbr. 14. gr. laga nr. 6/2001.
Byggingarmál:

12.Vatnsbakkavegur 10, L228626 - Umsókn um byggingaráform og byggingarleyfi

2203044

Umsókn um byggingarleyfi fyrir 120,0 m² frístundahúsi, mhl 01, skv. aðaluppdráttum dags.20.03.2022.
Niðurstaða:
Samþykkt
Byggingarfulltrúa falið að veita byggingarheimild, þegar öll nauðsynleg gögn hafa borist, sbr. 2.3.8. gr. byggingarreglugerðar nr. 112/2012.

13.Langimelur 26 - Umsókn um byggingaráform og byggingarleyfi

2203054

Umsókn um byggingarleyfi fyrir 152,2 m² frístundahúsi, mhl 01, skv. aðaluppdráttum dags.14.03.2022.
Niðurstaða:
Samþykkt
Byggingarfulltrúa falið að veita byggingarheimild, þegar öll nauðsynleg gögn hafa borist, sbr. 2.3.8. gr. byggingarreglugerðar nr. 112/2012.
Önnur mál:

14.Fundargerð 104. fundar svæðisskipulagsnefndar

2203006

Niðurstaða:
Lagt fram

15.Fundargerð 105. fundar svæðisskipulagsnefndar

2203033

Niðurstaða:
Lagt fram

Fundi slitið - kl. 18:45.