Fara í efni

Umhverfisnefnd

393. fundur 30. janúar 2012 kl. 10:23 - 10:23 Eldri-fundur

Fundur haldinn 26. janúar 2012 kl. 11.00 í Ásgarði.

 

  1. Ársskýrsla náttúruverndarnefnda sveitarfélaga til Umhverfisstofnunar.
    Farið var yfir sniðmát ársskýrslu frá Umhverfisstofnun og fjallað um þau mál sem æskilegt er að komi fram í skýrslunni, s.s. ástand og úrbætur friðlýstra svæða, efnistöku, utanvegaakstur, fræðsluefni á svæðum á náttúruminjaskrá, ágengar tegundir plantna og aðgerðir gegn þeim og fleira. Guðný Ívarsdóttir kom inn á fundinn og veitti upplýsingar um einstök mál. Formaður nefndarinnar tekur að sér að fylla út skýrsluna og senda til Umhverfisstofnunar.

  2. Könnun um aðgerðir gegn neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga í sveitarfélaginu.
    Könnunin er á vegum Nordlead sem er norrænt verkefni sem Samband íslenskra sveitarfélaga er aðili að. Formaður nefndarinnar tekur að sér að svara spurningarlistanum.

  3. Blá tunna fyrir pappírsúrgang.
    Nefndin hvetur til þess að tekin verði upp blá tunna fyrir pappírsúrgang í sveitarfélaginu með það að markmiði að nýta betur endurvinnanlegan úrgang í sveitarfélaginu. Í gjaldskrá SORPU kemur fram að blandaður pappírsúrgangur, s.s. bylgjupappi, dagblöð, auglýsingapóstur og umbúðir úr sléttum pappa bera ekki móttökugjöld. Sé slíkum úrgangi hins vegar hent með öðrum úrgangi eru móttökugjöld rúmlega 17 krónur á kg. Ætla má að pappírsúrgangur sé í það minnsta um 20% af heildarúrgangi heimila. Þannig gæti sveitarfélagið stuðlað að sparnaði til lengri tíma litið um leið og það eykur þjónustu við íbúa og sýnir ábyrgð í umhverfismálum. Það ræðst þó af því hversu hagstæð tilboð vegna hirðu og flutninga úrgangsins verða. Umhverfisnefndin hvetur til þess að skoðaðar verði mismunandi leiðir hvað varðar hirðutíðni og stærð íláta til að finna út hagstæðustu lausnina. Fyrirsjáanlegt er að bláa tunnan verði tekin upp í nágrannasveitarfélögum og er hún reyndar þegar komin í gagnið sumsstaðar. Æskilegt er að Kjósarhreppur fylgi þeirri þróun og njóti þá góðs af þeirri kynningu sem mun eiga sér stað þegar höfuðborgarsvæðið hefur tekið upp þessa lausn væntanlega á þessu ári.

  4. Aðrar umræður.
    Nefndin telur að gagnlegt gæti verið að halda sameiginlegan fund með Kjósarstofu og öðrum nefndum sem hafa sameiginlega fleti með umhverfisnefndinni. Rætt yrði um verkefni sem hefðu skörun, s.s. fræðslutengd verkefni og fleira.

 

Fundi slitið kl. 13.10.

 

Gyða Björnsdóttir

Kristján Oddsson