Fara í efni

Frumhugmyndir að deiliskipulagi reits F18a í landi Valdastaða í Kjósarhreppi

Deila frétt:
Mynd 2 - Tillaga A2F arkitekta - Afstöðumynd
Mynd 2 - Tillaga A2F arkitekta - Afstöðumynd

Uppbygging og framtíðarsýn

Kjósarhreppur festi kaup á hluta af Valdastaðalandinu árið 2021. Tilgangur kaupanna er að skipuleggja íbúðahúsalóðir í sveitarfélaginu en töluverð eftirspurn er eftir lóðum í sveitarfélaginu og er verið að bregðast við þeirri eftirspurn og einnig framtíðareftirspurn. Sveitarfélagið hefur ekki áður ráðist í svo viðamikla uppbygingu en síðustu íbúðarhúsalóðir voru skipulagðar af sveitarfélaginu í lok síðustu aldar við Harðbalasvæðið.

Samantekt á niðurstöðu valnefndar

Í samræmi við áherslur Kjósarhrepps um fjölgun íbúa og eflingu byggðar í Kjós óskaði hreppsnefnd eftir tillögum frá þremur ráðgjafarfyrirtækjum arkitekta að íbúabyggð á svæði 18a í landi Valdastaða.

Fyrirtækin voru A2F-arkitektar ehf., Krads/Trípólí og VA-arkitektar ehf. Þau skiluðu tillögum sínum þann 30. desember 2021 og kynntu í kjölfarið tillögurnar fyrir valnefnd. Þrír fagdómarar auk skipulagsfulltrúa Kjósarhrepps skipuðu valnefndina, en þeim til ráðgjafar var oddviti hreppsins. Niðurstaða nefndarinnar var kynnt hreppsnefnd á fundi hennar sem fram fór 13. janúar 2022.

Áætlað er að skipuleggja íbúðabyggð á svæðinu með 150-200 lóðum og byggja upp í áföngum á næstu árum. Áhersla sveitarstjórnar um viðhald dreifbýlisyfirbragðs, góða landnýtingu, hagkvæma uppbyggingu og bætta nýtingu innviða í sveitarfélaginu voru valnefndinni leiðarljós við umfjöllun og mat á tillögum þátttakenda.

Þátttakendur voru hvattir til að nálgast viðfangsefnið með frumlegum hætti, með áherslu á gott mannlíf, vellíðan, framsækna byggingarlist og umhverfisvænar lausnir.

Valnefndin var einhuga um að höfundar tillagna hafi allir lagt mikinn metnað og vinnu í tillögugerðina og megi líta á framlag sitt með stolti. Tillögurnar varpa ljósi á þrjár mögulegar þróunarleiðir samfélagsmyndunar á svæðinu. Þær veita sameiginlega góða sýn á tækifæri og takmörk svæðisins og eru mikilvægt veganesti fyrir sveitarstjórn við mótun stefnu um uppbyggingu á því.

Valnefndin var einhuga um að tillaga A2F arkitekta ehf. sé best til þess fallin að raungera markmið Kjósarhrepps og lagði til við hreppsnefnd að hefja viðræður við tillöguhöfunda um þróun tillögunnar og gerð deiliskipulags fyrir svæðið í samræmi við umsögn og veganesti valnefndarinnar.

Um tillögu A2F segir m.a.:

Tillagan býr yfir mikilli næmni og höfundar hafa lesið forsendur landgæða vel. Það birtist ágætlega í nafni tillögunnar „byggð milli lækja“. Tillagan lagar sig að landi og staðháttum með skýrri aðlögun að lækjum. Hugmynd um græna ásinn og samfélagslegar stofnanir sem tengjast honum og Ásgarði er hógvær og raunsæ og samtvinnun byggðar við náttúru er aðlaðandi.

Tillagan býr yfir ríkum staðaranda og rís hátt á mælikvarða samfélagslegs fjölbreytileika. Hún býr yfir góðum eiginleikum til að örva samskipti og fjölbreytta samveru. Hugmynd að göngustígakerfi og torgum sem tengja saman byggðina er líkleg til að skapa umgjörð um gott mannlíf á svæðinu. Tillagan býður upp á margvísleg búsetuskilyrði. og lóðarstærðir eru fjölbreyttar. Tillagan leggur til flestar lóðir og er hagkvæmust tillagnanna m.t.t. landnýtingar og umfangs gatna pr. lóð.

Fyrirkomulag blágrænna ofanvatnslausna er til fyrirmyndar og flettast af næmleika við göngustígakerfi og torg byggðarinnar. Stíga- og gatnakerfi er einfalt og fínlega riðað saman við byggðina. Góð rök eru færð fyrir hvernig tillagan endurspeglar heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Veikleiki tillögunnar felst í þéttleika byggðarinnar, sem vinnur gegn áherslum sveitarfélagsins um dreifbýlisyfirbragð.

Tillögur höfunda og umsagnir um þær koma fram í [niðurstöðu valnefndar].

[hlekkur á tillögu A2F-arkitekta]

[hlekkur á tillögu Krads/Trípólí]

[hlekkur á tillögu VA-arkitekta ehf.]